EN

15. febrúar 2023

Hljómborðsklukkuspil til minningar um Önnu Guðnýju píanóleikara afhent að gjöf

Í morgun við upphaf æfingar í Eldborg var Sinfóníuhljómsveit Íslands afhent hljómborðsklukkuspil að gjöf. Frank Aarnink, slagverksleikari hljómsveitarinnar, hafði frumkvæðið að söfnun fyrir hljóðfærinu og fékk Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands til samstarfs. Hljómborðsklukkuspil hefur hingað til ekki verið tiltækt á Íslandi og er mikill fengur að gjöfinni.

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil.

Hljóðfærið er tileinkað minningu Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara sem lést 11. september 2022. Anna Guðný hafði mikil áhrif á tónlistarlíf og tónlistarfólk á Íslandi og á að baki glæstan feril. Hún átti sér þann draum að hljómsveitin eignaðist hljómborðsklukkuspil sem leikið er á í mörgum þekktum verkum tónlistarsögunnar.

Það voru þau Frank Aarnink og Bryndís Guðjónsdóttir, formaður Vinafélagsins, sem afhentu gjöfina en Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdarstjóri SÍ, tók á móti henni fyrir hönd hljómsveitarinnar og þakkaði fyrir þessa ómetanlegu gjöf. Sigurður Ingvi Snorrason, eftirlifandi eiginmaður Önnu Guðnýjar, var viðstaddur athöfnina og ávarpaði hljómsveitina.

Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands lagði söfnuninni til 1.400.000 kr. Einnig lögðu fleiri félög og góðir vinir og samstarfsfólk Önnu Guðnýjar söfnuninni ómetanlegt lið.

Í heildina hafa nú safnast 4.600.000 kr. Þegar greitt hefur verið fyrir hljóðfærið og flutning þess til landsins standa eftir um 600.000 kr. sem lagðar verða í sérstakan minningarsjóð um Önnu Guðnýju fyrir hljóðfærakaupum í framtíðinni.

Á laugardaginn kemur flytur hljómsveitin Töfraflautuna eftir Mozart á fjölskyldutónleikum og verður þá leikið á hljómborðsklukkuspilið í fyrsta sinn á tónleikum. Enn er hægt að leggja inn á reikning Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og mun upphæðin renna í minningarsjóðinn. Mikilvægt er að setja í skýringu „styrkur“ - Reikningur: 513-26-24060 Kennitala: 420402-4060.

Við þökkum öllum sem lögðu málefninu lið fyrir framlag sitt en án þess hefði þetta ekki getað orðið að veruleika.