EN

7. desember 2022

Jólastundir fyrir einstök börn

Í vikunni hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands jólastundir fyrir einstök börn. Jólastundirnar voru fjórar talsins þar sem hljómsveitin spilaði fyrir nemendur úr Klettaskóla, Arnarskóla, Hlíðaskóla, leikskólanum Sólborg, skóladeild Laufásborgar og fyrir skjólstæðinga Blindrafélagsins. Leikin voru fjölbreytt jólalög, þar á meðal sérstakur jólaforleikur með uppáhalds jólalögum barnanna, en kallað var eftir eftirlætis lögum nemenda skólanna fyrir tilefnið.

Jólastundin fór fram í Norðurljósum, í rólegu og afslöppuðu umhverfi. Heyrnaskert börn fengu að sitja inni í hljómsveitinni og koma við hljóðfærin á meðan tónleikunum stóð. Þá bauðst gestum einnig upp á að fá blöðrur á jólastundinni til að finna sem best hljóðbylgjurnar frá hljómsveitinni. Kynnir var trúðurinn Sigfús, leikinn af Kjartani Darra Kristjánssyni, og Maxímús Músíkús og dansarar úr Listdansskóla Íslands komu einnig fram með hljómsveitinni. Hljómsveitarstjóri var Nathanel Iselin. Við þökkum nemendum og starfsfólki skólanna kærlega fyrir yndislega samveru.