EN

1. nóvember 2024

Kvika eignastýring áfram bakhjarl Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Kvika eignastýring og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa framlengt samstarfssamning sinn til næstu ára en Kvika eignastýring hefur verið bakhjarl hljómsveitarinnar frá árinu 2021. Hannes Frímann Hrólfsson framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar og Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar skrifuðu nýverið undir samkomulagið í Hörpu.

Samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kviku eignarstýringar hefur verið afar farsælt og því ánægjulegt að skrifað hafi verið undir áframhaldandi samning. Yfirstandandi starfsár er með glæsilegasta móti þar sem við fögnum 75 ára starfsafmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ógleymanlegum tónleikum sellóleikarans Yo-Yo Ma er nýlokið og framundan eru fleiri tónleikar sem eru hluti af glæsilegri afmælisdagskrá hljómsveitarinnar, má þar til dæmis nefna sjálfa afmælistónleikana sem haldnir verða í mars þar sem Víkingur Heiðar kemur fram sem einleikari, tónleikaferð hljómsveitarinnar um Suðurland í apríl og tónlistarveislu með Barböru Hannigan í júní. Við erum þakklát Kviku eignarstýringu fyrir að styðja við okkar fjölbreytta og mikilvæga starf,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir.

Við í Kviku eignastýringu höfum átt virkilega ánægjulegt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur hljómsveitin í gegnum árin sýnt það og sannað hversu öflug hún er og hversu lánsöm við sem þjóð erum að eiga hana að. Við erum því virkilega stolt af því að geta stutt við jafn framúrskarandi hljómsveit og tónlistarfólk til menningarsköpunar eins og raun ber vitni,“ segir Hannes Frímann.

Samningur við Sinfóníuhljómsveit Íslands er hluti af stefnu Kviku eignastýringar að styðja við verkefni sem auðga listsköpun og menningarlíf hér á landi.