EN

21. október 2024

Loksins, loksins

Sigurgeir Agnarsson, leiðari sellódeildar Sinfóníunnar, tekinn tali um heimsókn Yo-Yo Ma

Þetta er langþráður draumur allra sellóleikara á Íslandi,“ segir Sigurgeir Agnarsson, inntur eftir því hvernig honum lítist á fyrirhugaða heimsókn sellóleikarans og stórstjörnunnar Yo-Yo Ma, sem staðið hefur á hátindi klassíska heimsins um áratugaskeið. „Ég held þetta hafi oft staðið til, oft verið rætt um hvernig hægt væri að koma þessu í kring. Það er frábært að það hafi loks tekist!“

Sigurgeir á minningar um Yo-Yo Ma á bernskuárum sínum. „Einn af allra fyrstu diskunum sem mér voru gefnir var upptaka af leik Yo-Yo Ma frá 1988 þar sem hann leikur m.a. sellókonsert Schumanns, ég á þennan disk ennþá, ég var ekki nema tíu eða tólf ára þegar ég fékk hann.“ Sigurgeir getur ekki annað en tekið undir að Ma hafi verið honum fyrirmynd sem ungum sellónemanda. „Með árunum hefur hann orðið meira og meira íkon. Hann kemur fyrst fram á sjónarsviðið sem undrabarnið sem spilaði fyrir Kennedy í Hvíta húsinu en svo springur þessi glæsilegi einleikaraferill út og hann verður frægasti sellóvirtúós heims.“

ÓVIÐJAFNANLEG ÚTGEISLUN SEM SNERTIR ALLA

Ferill Yo -Yo Ma sem tónlistarmanns er um margt óvenjulegur, en á síðustu árum hefur hann nýtt frægð sína til þess að vinna með tónlistina sem sameiningarafl ólíkra menningarheima og hefur meðal annars starfað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. „Hann hefur verið svo skemmtilega leitandi í listinni,“ segir Sigurgeir. „Kynnt sér tónmenningu ólíkra landa, Suður Ameríku, Asíu og annarra svæða. Það má segja að hann sé í dag miklu meira en bara sellóleikari — hann kemur ekki öllum sínum hugðarefnum fyrir í sellóinu, á þessum fjórum strengjum. Hann hefur átt í samstarfi við alls konar tónlistarfólk; frumbyggja, bluegrass tónlistarmenn, tangó sérfræðinga, arabíska tóngúrúa og svo má lengi telja. Hann hefur gætt þess að lokast aldrei inni í einhverjum kassa, heldur alltaf verið víðsýnn og opinn fyrir nýjum hugmyndum.“ Sigurgeir bætir við að í raun sé það ótrúleg heppni að hafa náð Yo-Yo Ma til landsins nú, því þótt hann sé enn á hátindi spilamennsku sinnar fari æ meira af tíma hans í þessi samfélagslegu verkefni. „Hann spilar ekki á jafn mörgum tónleikum árlega og hann gerði — maður var orðinn smeykur um að glugginn væri að lokast. Það er því enn meiri gleði að hann skuli gefa sér tíma með okkur.“

Það er sellókonsert Elgars sem varð fyrir valinu með Sinfóníuhljómsveit Íslands „Mér líst afar vel á það. Þetta verður algjör flugeldasýning og eitthvað sem enginn ætti að missa af. Svo geta menn kynnst hinni hliðinni á honum á dúó tónleikunum með Kathryn Stott — þar eru ýmsir litlir gullmolar á efnisskránni í bland við glæsileg þungavigtar verk á borð við sónötur Shostakovitsj og César Franck,“ segir Sigurgeir og staðfestir að talsverð eftirvænting ríki í sellódeild hljómsveitarinnar. „En ég held í raun að allir unnendur klassískrar tónlistar ættu að vera mjög spenntir, ég hef séð hann nokkrum sinnum á sviði og hann býr yfir ótrúlegri nærveru. Það er töfrum líkast. Hann gengur inn á sviðið og maður elskar hann um leið. Það er eitthvað við bros hans og framkomu — hann nær salnum á sitt band. Það skiptir engu máli hversu vel maður er inni í klass ískri tónlist eða sellóleik, þessi útgeislun er engu lík. Þannig að þótt ég sé kannski dálítið hlutdrægur hefur mér alltaf fundist ótrúleg upplifun að fara á tónleika hjá honum. Þetta er einstök upplifun fyrir hvern sem er.“