Tomáš Hanus tekur við stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Hljómsveitarstjórinn Tomáš Hanus tekur við stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands næsta haust og mun gegna því hlutverki starfsárin 2025-26 og 2026-27. Hann mun stjórna hljómsveitinni á tvennum tónleikum í Eldborg á hvoru starfsári.
Tomáš Hanus hefur verið aðalhljómsveitarstjóri þjóðaróperunnar í Wales frá haustinu 2016. Hann hefur stjórnað mörgum þekktum hljómsveitum í Evrópu; Sinfóníuhljómsveitum Lundúna og Breska ríkisútvarpsins (BBC), Halle-hljómsveitinni, Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín, Dresden Staatskapelle og fjölmörgum öðrum. Tomáš Hanus hefur verið tíður gestastjórnandi við Ríkisóperuna í Vínarborg og stjórnað óperuuppfærslum við Bæheimsku ríkisóperuna í München, við Þjóðaróperuna í París og á síðasta ári stjórnaði hann í fyrsta skipti í La Scala í Mílanó.
Tomáš Hanus er hljómsveitinni og íslenskum tónleikagestum ekki alls ókunnur enda hefur hann verið reglulegur gestastjórnandi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og næstkomandi fimmtudagskvöld mun hann stjórna hljómsveitinni á tónleikum í Eldborg þar sem flutt verða verk eftir Bartók, Mozart og Schumann.
„Það er afar ánægjulegt að Tomáš Hanus hafi þegið boð um að verða næsti aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tomáš Hanus stendur á hátindi ferils síns og hefur átt í farsælu samstarfi við hljómsveitina, nú síðast fyrir um ári þegar hann stökk inn fyrir annan hljómsveitarstjóra með skömmum fyrirvara og sló eftirminnilega í gegn bæði hjá hljómsveitinni og áheyrendum.” Segir Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
„Ég hlakka mikið til þess að hefja samband mitt við Sinfóníuhljómsveit Íslands sem aðalgestastjórnandi. Hljómsveitin hefur á að skipa stórkostlegum hópi af hæfileikaríku fólki sem tengir saman mikla hæfileika og fagmennsku með ástríðu og ást sinni á tónlist. Það er mér heiður að fá að skapa tónlist með hljómsveitinni fyrir áheyrendur í þessu fallega landi, og ég hlakka til að eignast marga nýja vini hér.“ Segir Tomáš Hanus.