Styttist í komu Yo-Yo Ma og Kathryn Stott
Tvennir tónleikar í Eldborg
Í október mun bandaríski sellóleikarinn Yo-Yo Ma leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu og á sérstökum dúótónleikum í Eldborg með breska píanistanum Kathryn Stott. Yo-Yo Ma er einn þekktasti núlifandi hljóðfæraleikari heims og er koma hans því sannkallaður stórviðburður í íslensku tónlistarlífi. Á löngum og glæsilegum ferli hefur hann hljóðritað yfir 90 hljómplötur og unnið til 19 Grammy-verðlauna. Ásamt því að koma reglulega fram í mörgum af þekktustu tónleikahúsum heims og með framúrskarandi hljómsveitum hefur hann spilað á stórviðburðum eins og innsetningum forseta Bandaríkjanna og opnunarhátíð Ólympíuleika. Koma hins heimskunna sellóleikara er hluti af 75 ára afmælisdagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands og mun hann leika hinn áhrifamikla sellókonsert Edwards Elgar með hljómsveitinni.
Tónleikar Yo-Yo Ma með Sinfóníuhljómsveit Íslands fara fram fimmtudaginn 24. október og dúótónleikar hans með píanónleikaranum Kathryn Stott verða laugardaginn 26. október. Báðir tónleikarnir veða haldnir í Eldborg í Hörpu. Uppselt er á fyrri tónleikana en enn er hægt að tryggja sér miða á dúótónleikana.