EN

4. september 2023

Með endurnýjaðri ástríðu

Eva Ollikainen aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands segir frá starfsárinu framundan

Í febrúar 2023 endurnýjuðu Sinfóníuhljómsveit Íslands og Eva Ollikainen samning hennar sem aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda til ársins 2026. „Ég hlakka gríðarlega mikið til áfram­ haldandi samstarfs,“ segir Eva Ollikainen, en hún tók við stöðu aðalhljómsveitarstjóra í ársbyrjun 2020. Á komandi starfsári stýrir hún ýmsum hornsteinum sinfónískrar tónlistar með hljómsveitinni – svo sem fyrstu sinfóníu Brahms, Hetjuhljómkviðu Beethovens, níundu sinfóníu Bruckners og þriðju sinfóníu Mahlers.

„Ég er bæði glöð og þakklát fyrir að fá tækifæri til þess að vinna með hljómsveitinni að stórkostlegri tónlist í tvö starfsár í viðbót,“ segir Eva Ollikainen. Aðspurð um hvaða tónleikar standi upp úr svarar hún því hlæjandi að ómögulegt sé að gera upp á milli. „En við byrjum strax á upphafstónleikunum með efnisskrá að mínu skapi. Þar hljómar eitt fallegasta samtímaverk sem ég hef nokkru sinni heyrt, sellókonsert sænska tónskáldsins Anders Hillborg með Amalie Stalheim í einleikshlutverki, ásamt verkum Daníels Bjarnasonar, Sofiu Gubaidulinu og svítu Stravinskíjs úr ballettinum Eldfuglinum. Annars bíða mín margir og afar fjölbreyttir tónleikar með hljómsveitinni, svo ég hlakka til þeirra allra,“ segir Eva.

TÓNLIST SEM STENDUR HJARTANU NÆRRI
„Mörg verkanna sem ég stjórna á komandi starfsári standa hjarta mínu afar nærri,“ bætir hún við. Þetta er tónlist af þýska málsvæðinu: Beethoven, Brahms, Schubert, Mahler, Bruckner – þarna slær hjarta mitt í tónlistinni og þarna finnst mér styrkleikar mínir nýtast til fullnustu. Fyrir utan að vera algjörlega frábær tónlist fyrir áheyrendur er þetta tónlist sem gagnast sinfóníuhljómsveitum mjög vel við að byggja upp styrkleika hverrar deildar og efla hljóm sinfóníuhljómsveitarinnar sem heildar,“ segir Eva og nefnir að verkefnaval aðalhljómsveitarstjóra snúist ekki bara um að hrífa áheyrendur í hvert skipti, heldur finna leiðir til þess að þroska hljómsveitina og gefa henni tækifæri til að blómstra. „Ekki síst þegar kemur að því að þróa hljómblæ hennar í verkum ólíkra tónskálda frá mismunandi tímum – að leyfa ólíkum andblæ verkanna að endurspeglast í hljómi sveitarinnar frá fyrsta tóni. Fyrstu sinfóníur Beethovens eiga ekki að hljóma eins og þær síðari, til dæmis, og sama má segja um sinfóníur Mahlers. Allt þetta þarf hljómsveitin tækifæri til að finna og fága.“

AÐ LEGGJA RÆKT VIÐ LIFANDI TÓNSKÁLD
Þótt tónlist gömlu meistaranna sé órjúfanlegur hluti af starfi sinfóníuhljómsveitar er Eva Ollikainen ekki síður ástríðufull þegar kemur að nýrri tónlist og tónlist þeirra sem hingað til hafa átt undir högg að sækja í tónlistarheiminum. „Allar hljómsveitir í heiminum eru nú farnar að breiða út faðminn og kanna nýjar leiðir til þess að gera starfsemi sína opnari og fjölbreyttari,“ segir Eva Ollikainen. „Mér finnst þetta skipta sérstaklega miklu máli fyrir þjóðarhljómsveit í landi sem hefur verið í fararbroddi hvað varðar jafnrétti. Vissulega skiptir máli að endurskoða söguna og á undanförnum árum hafa verk margra kvenna fortíðarinnar verið dregin upp úr glatkistunni. En mér finnst sérstaklega mikilvægt að leggja rækt við þau tónskáld sem eru lifandi núna. Þar getum við raunverulega skipt máli. Ég er til að mynda óskaplega spennt fyrir að Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflytji hér á landi verk eftir tónskáld á borð við Helen Grime og Önnu Clyne og heimsfrumflytji verk eftir Veronique Vöku,“ segir Eva. „Ég hlakka auðvitað ekki síður til að frumflytja verk Daníels Bjarnasonar og Hafliða Hallgrímssonar. Lifandi tónskáld færa okkur andblæ samtímans og tala til okkar á alveg sérstakan hátt.“

ENGINN SPILAR ÖNNU EINS OG SINFÓ
„Svo hlakka ég alveg óskaplega til að fagna samstarfi okkar við Önnu Þorvaldsdóttur, sem brátt lætur af störfum sem staðartónskáld hljómsveitarinnar, með Önnu-hátíð í október, þar sem verk hennar hljóma bæði á hefðbundnum fimmtudagstónleikum í Eldborg og á föstudagstónleikum í Hallgrímskirkju,“ segir Eva. Hún bætir við að nýtt verk eftir Önnu, METAXIS, þar sem litlir hópar úr hljómsveitinni dreifast um allt almenningsrými Hörpu og leika á hljómburð Hörpu sjálfrar, verði frumflutt í júní sem hluti af setningarhátíð Listahátíðar í Reykjavík. „Við erum ótrúlega lánsöm að hafa fengið að njóta krafta Önnu og hæfileika sem staðartónskálds í sex ár. Á meðan hefur ferill hennar verið einstakur, enda er hún í fremstu röð á heimsvísu. Þetta er dýrmætt samband og sérstakt, og það er til að mynda einstakt hvernig Sinfóníuhljómsveit Íslands þekkir tónsmíðar Önnu út og inn. Tónmál hennar er eins konar móðurmál fyrir hljómsveitinni, sem skilur það um leið. Ég hef stjórnað verkum Önnu með hljómsveitum víða um heim, en enginn spilar verk hennar eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er svolítið eins og að stjórna sinfóníum Sibeliusar í Helsinki – eins og að koma heim.“