EN

23. ágúst 2023

Ávarp framkvæmdastjóra

Kæru tónleikagestir.

Sérhvert starfsár Sinfóníuhljómsveitar Íslands er litríkur vefnaður þar sem óteljandi þræðir koma saman. Það er ótrúleg tilfinning þegar hver þráður ratar á réttan stað og til verður starfsár þar sem hljómsveitin fær að blómstra í samstarfi við framúrskarandi listafólk úr ýmsum áttum, áheyrendum til gleði og upplyftingar.

Komandi starfsár geymir fjölmarga spennandi tónleika sem spanna allt litrófið. Hljómsveitin flytur tónlist frá barokktímanum til okkar daga, víðsvegar að úr heiminum, jafnt sígræna klassík sem sjaldheyrðar perlur. Meðal gesta okkar á starfsárinu eru stjörnur úr hinu alþjóðlega tónlistarlífi, á borð við sópransöngkonuna og hljómsveitarstjórann Barböru Hannigan, flautuleikarann Emmanuel Pahud, sellóleikarann Kian Soltani og píanóleikarann Benjamin Grosvenor auk staðarlistamanns vetrarins, fiðluleikarans Leilu Josefowicz. Hljómsveitin kannar nýjar og spennandi lendur í tónlistinni – frumflytur verk eftir nokkur af okkar helstu tónskáldum, sameinar krafta sína Gjörningaklúbbnum á Myrkum músíkdögum og lýkur starfsárinu með samstarfi við Listahátíð þar sem glænýtt verk Önnu Þorvaldsdóttur, sem samið er fyrir opna rýmið í Hörpu, verður frumflutt. Á hátíðinni flytur hljómsveitin einnig þriðju sinfóníu Mahlers í allri sinni dýrð í Eldborg. Þá verða á dagskrá uppistandstónleikar og tónleikar þar sem nokkrir af dáðustu popptónlistarmönnum þjóðarinnar vinna með hljómsveitinni – meðal annars í samstarfi við tónlistarhátíðina Iceland Airwaves.

Við höldum áfram að leggja okkur fram um að rækta hlutverk okkar sem þjóðarhljómsveit með reglulegum útsendingum í útvarpi og sjónvarpi og heimsóknum út á land. Hljómsveitin opnar dyrnar upp á gátt með tónleikum á Menningarnótt í Reykjavík og færir landsmönnum öllum Klassíkina okkar beint heim í stofu í upphafi starfsárs auk þess sem sjónvarpað verður frá völdum tónleikum sveitarinnar úr ýmsum tónleikaröðum yfir veturinn. Við teflum sem fyrr fram öflugu fræðslustarfi og bjóðum þúsundum barna og ungmenna á metnaðarfulla skólatónleika á starfsárinu auk þess að bjóða upp á vandaða fjölskyldutónleika og barnastundir. Við kappkostum að eiga í virkum tengslum við tónlistarfólk framtíðarinnar og höldum áfram að starfrækja Ungsveit og Hljómsveitarstjóraakademíu.

Í upphafi árs endurnýjuðum við samstarfssamning okkar við Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fram til ársins 2026. Á þessu starfsári stýrir Eva hljómsveitinni af krafti í nokkrum af helstu stórvirkjum tónbókmenntanna, auk þess sem hún heldur áfram að leggja rækt við nýjabrumið í íslenskri tónsköpun. Glæsilegt tónlistarfólk úr röðum hljómsveitarinnar, svo sem Arngunnur Árnadóttir klarínettleikari og Vera Panitch fiðluleikari, leika einleik með hljómsveitinni og það gerir einnig ungt, íslenskt tónlistarfólk í fremstu röð, á borð við Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmonikkuleikara og Arnheiði Eiríksdóttur mezzósópran. Í haust fögnum við svo saman frábæru samstarfi okkar við Önnu Þorvaldsdóttur tónskáld, sem lætur af starfi staðartónskálds um áramótin eftir sex gjöful ár, með hátíð sem felur í sér tónleika í Hörpu og Hallgrímskirkju. Meðal annarra tíðinda á komandi vetri eru breytingar á Grænu tónleikaröðinni en tónleikar hennar færast nú úr sjónvarpinu og aftur í fulla lengd í Eldborg þar sem skemmtileg og aðgengileg meistaraverk verða á efnisskránni, auk ómissandi aðventutónleika sönghópsins King‘s Singers og Vínartónleikanna sívinsælu.

Við hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands erum þakklát fyrir samfylgdina og tryggð ykkar við hljómsveitina. Við erum líka stolt af frábærum móttökum sem hljómsveitin hefur hlotið erlendis að undanförnu, bæði í tengslum við velheppnaða tónleikaferð til Bretlands í apríl og fyrir útgáfu hljómsveitarinnar á tónlist íslenskra tónskálda sem hlotið hefur verðskuldaða athygli. Við erum þess fullviss að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi á þessu starfsári Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Við hlökkum til samspilsins við ykkur, kæru tónleikagestir, og bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin á tónleika.