Minningarorð um Jón Nordal
Tónskáldið Jón Nordal markaði djúp spor í íslenska tónlistarsögu en hann er nú látinn á 99. aldursári. Jón var miðlægur í tónlistarlífi landsmanna um árabil, eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar en líka mikilvirkur í uppbyggingarstarfi tónlistarlífsins sem skólastjóri og baráttumaður fyrir réttindum tónlistarmanna. Eftir hann liggja jafnt tónlistarperlur sem hvert mannsbarn þekkir og ágengari tilraunamennska sem fyllilega var í takt við þá strauma og stefnur sem hæst stóðu eftir námsár hans í evrópsku tónlistarlífi upp úr miðri síðustu öld. Jón var líka einn stofnenda Musica Nova, félags sem stóð fyrir áður óþekktri tilraunamennsku og framúrstefnu í tónlistarlífinu sem þá var mun fábreyttara en það er í dag. Sú stöðuga þróun sem orðið hefur síðan hér á landi er aðilum eins og Jóni einmitt að þakka.
Sinfóníuhljómsveit Íslands átti gott og gæfuríkt samstarf við Jón Nordal í fjölda ára, allt frá því að hann frumflutti píanókonsert sinn með sveitinni árið 1957. Hljómsveitin hefur frumflutt og hljóðritað mörg hans þekktustu hljómsveitarverka, meðal þeirra Choralis, Adagio, Konsert fyrir hljómsveit og Langnætti.
Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar Jóni Nordal samfylgd og líf í tónlist. Við vottum aðstandendum Jóns samúð okkar og hlýju.
- Takk fyrir tónlistina.