EN

22. september 2022

Minningarorð um Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur

Við kveðjum í dag yndislega samstarfskonu og framúrskarandi listamann. Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1985 og var fastráðin við hljómsveitina frá árinu 2005. Hún var einstakur starfsmaður sem tók öllum verkefnum fagnandi, fóstraði þau og vann af natni. Anna Guðný sinnti ekki aðeins píanóleik í hljómsveitinni, hún var einnig meðleikari í prufuspilum sem skipta hundruðum og studdi þar við hljóðfæraleikara sem sóttust eftir starfi hjá hljómsveitinni. Anna Guðný lék einnig á fjölda kammertónleika á vegum Sinfóníunnar og kom margoft fram sem einleikari með hljómsveitinni, fyrst árið 1988 þegar að hún lék píanókonsert Mozarts nr. 24. Hún hafði einstakan tón, framúrskarandi tækni og hver einasta nóta hafði sinn sérstaka blæ.
Við erum Önnu Guðnýju einnig afar þakklát fyrir starf hennar í þágu Vinafélags hljómsveitarinnar sem hún ásamt Sigurði eiginmanni sínum sinnti árum saman.
Alúð, traust og fagmennska einkenndu Önnu Guðnýju. Hún var styðjandi og hvetjandi. Við erum þakklát fyrir dýrmætt samstarf, ómælt framlag til íslensks tónlistarlífs og fyrir hlýjuna, jákvæðnina og seigluna.
Við vottum Sigurði Ingva, fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúð.
Hvíl í friði, elsku Anna Guðný.

Fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitar Íslands,
Lára Sóley Jóhannsdóttir,
framkvæmdastjóri