Minningarorð um Reyni Sigurðsson
Við minnumst Reynis Sigurðssonar sem lést 2. nóvember síðastliðinn. Reynir var einstaklega hæfileikaríkur og fjölhæfur tónlistarmaður og einstakt prúðmenni. Hann starfaði sem slagverksleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1959, hlaut fastráðningu 1969 og lét af störfum árið 2001.
Samstarfsfélagar minnast Reynis með mikilli þökk og virðingu sem natins og þolinmóðs kennara, sérlega góðs samstarfsfélaga og leiðara. Reynir var ávallt vel undirbúinn og einstaklega laginn og uppfinningasamur við að bjarga stöðunni þegar lítið var um hljóðfæri og mannskap þegar leika skyldi stór og mikil tónverk, einkum þegar um nýrri tónlist var að ræða.
Reynir glæddi nemendur sína forvitni og áhuga á ólíkum tegundum tónlistar og var mikill snillingur þegar kom að því að leika spuna á sitt aðalhljóðfæri sem var víbrafónninn. Reynir lék einnig mjög vel á harmonikku og bassa, meðal annars á ýmsum ástsælum upptökum hjá SG hljómplötum. Reynir var rólyndur og kærleiksríkur samstarfsmaður sem lumaði á góðum húmor sem hann kom frá sér með yfirlætislausum og ljúfmannlegum hætti.
Við minnumst Reynis með milli hlýju og þakklæti fyrir framlag hans til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitar Íslands,
Eggert Pálsson, slagverksleikari
Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri