EN

6. nóvember 2023

Undrabarnið sem fór í uppreisn

Leila Jozefowicz staðarlistamaður segir frá tónleikum vetrarins, ferli sínum og ástríðunni fyrir nýrri tónlist

„Ég hlakka ósegjanlega til að koma og vinna með þessari frábæru hljómsveit á þessum kvarða,“ segir Josefowicz þegar hún er tekin tali í síma frá heimili hennar í New York, en hún flutti fiðlukonsert John Adams, Scheherazade.2, með hljómsveitinni árið 2017. Josefowicz hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar á ferlinum, meðal annars hin virtu MacArthur-verðlaun sem veitt eru framúrskarandi vísinda- og listafólki úr ýmsum áttum. Verðlaunin hlaut hún „fyrir að auka við efnisskrá hljóðfæris síns og að heilla áheyrendur með því að tefla hinu framsækna og fjölbreytta á móti hinu hefðbundna“.

AÐ UPPLIFA TÓNLISTINA Á EIGIN FORSENDUM

Tónleikar Josefowicz með Sinfóníuhljómsveit Íslands starfsárið 2023–24 verða svo sannarlega spennandi blanda hins framsækna og hins hefðbundna. Hún leikur tvo einleikskonserta með hljómsveitinni, fiðlukonsert Béla Bartóks þann 9. nóvember og fiðlukonsert skoska tónskáldsins Helen Grime 11. janúar, en daginn eftir síðari tónleikana leikur hún á einleikstónleikum í föstudagsröðinni þar sem fiðlupartíta Bachs hljómar ásamt verki Matthiasar Pintscher, La Linea Evocativa. „Ég spilaði Bartók-konsertinn mikið þegar ég var á þrítugsaldri og mér finnst stórkostlegt að koma aftur að verkinu nú, með enn dýpri lotningu fyrir snilld þess, litadýrðinni, minnisstæðum laglínum þess, útpældu forminu og spennandi hljóðfæranotkun,“ segir Josefowicz og bætir við: „Þvílíkur snillingur!“

Hinn konsertinn er eftir hina skosku Helen Grime, sem fædd er 1981 og er meðal fremstu ungu tónskálda Bretlandseyja nú um stundir. „Verkið hefur dulræna og seiðandi vídd, ótrúlegan rytmískan sprengikraft og býr auk þess yfir þeim fágæta eiginleika að veita einleikaranum mikið frelsi. Það er áhugavert að spila jafnmörg ný verk og ég geri, því maður fer að finna það strax þegar verk smellur, bæði við flytjandann og við áheyrendur. Þetta er eitt af þeim. En orðin duga skammt til þess að lýsa góðri tónlist. Best er að áheyrendur hlusti á með opnum, forvitnum hug og leyfi sér að upplifa tónlistina á eigin forsendum.“

FANN RÖDD SÍNA Í BACH

„Einleikstónleikarnir eru áhugaverðir því þarna hljóma tvö meistaraverk fyrir fiðlu, samin með 250 ára millibili, og bæði kanna mögnuðustu hljóðin sem fiðlan er fær um að gefa frá sér,“ segir Josefowicz, sem sökkti sér í verk fyrir einleiksfiðlu án undirleiks í heimsfaraldrinum. „Ég hafði aldrei áður flutt Bach opinberlega – eins ótrúlega og það hljómar – en þetta var loksins rétti tíminn. Nú hafði ég margra mánaða næði til þess að finna mína eigin rödd í tónlist Bachs og gat hætt að hafa áhyggjur af væntingum annarra. Ég er óskaplega hamingjusöm að hafa fengið þetta tækifæri. Og það var líka í faraldrinum sem ég pantaði verkið af Matthiasi Pintscher. Við vorum öll í áfalli og þetta verk er ein af gersemunum sem spruttu upp úr þessu furðulega ástandi,“ segir Josefowicz.

„ÞETTA VAR ÁKVEÐIN UPPREISN“

Leila Josefowicz er fædd í Ontariofylki í Kanada árið 1977 en fluttist með fjölskyldu sinni ung að árum til Los Angeles í Bandaríkjunum, þar sem hún hóf fiðlunám þriggja og hálfs árs gömul. Þrettán ára gömul innritaðist hún í Curtis-tónlistarháskólann í Fíladelfíu og á táningsaldri var hún farin að koma fram sem einleikari með helstu hljómsveitum Bandaríkjanna og Evrópu. En hvenær fór hugurinn að snúast til nýrrar tónlistar? „Ég var svo ung þegar ég náði frama sem einleikari að mér fannst ég í rauninni aldrei hafa tækifæri til að ákveða sjálf hvað mig langaði til að gera í tónlistinni; það var allt þegar komið í gang,“ segir Leila Josefowicz. „Ég held að áhuginn á nýju tónlistinni hafi svolítið sprottið úr þessu. Ég var mjög forvitin að kanna nýja tónlist, mig hungraði í eitthvað óvenjulegra, einstakara, eitthvað sem ekki var fyrirfram ákveðið. Þetta var ákveðin uppreisn. Ég man eftir að hafa hugsað, seint á táningsaldri: Ég elska Tsjajkovskíj-konsertinn, en elska ég hann nóg til þess að spila hann áratugum saman í viðbót?“

NÝ TÓNLIST ÞARF SÖMU ALÚÐ OG VERK GÖMLU MEISTARANNA

Tsjajkovskíj-fiðlukonsertinn var einmitt verkið sem Josefowicz lék þegar hún debúteraði sautján ára gömul í Carnegie Hall í New York með hljómsveit Academy of St. Martin in the Fields undir stjórn Sir Neville Marriner. Hún gerði í kjölfarið útgáfusamning við Philips-hljómplöturisann og hefur síðan hljóðritað öndvegisverk fiðlubókmenntanna frá ýmsum tímum fyrir hann, auk annarra útgáfufyrirtækja á borð við Warner og Deutsche Grammophon. En listakonan unga gerði fljótlega upp hug sinn. „Tilfinningin var sú að mig langaði til þess að gera meira við tónlist. Mér fannst líka ný tónlist stundum ekki njóta sannmælis. Einleikararnir sinntu henni ekki með sömu alúð og gömlu meistaraverkunum og þess vegna fengu áheyrendur ekki að kynnast henni á sama hátt og þeim. Flytjendur bera mikla ábyrgð á flutningi nýrra verka. Án ástríðu þeirra skila þau sér einfaldlega ekki til áheyrenda.“

BEST AÐ SPILA ÞAÐ SEM ENGINN HEFUR HEYRT ÁÐUR

„Ég var mjög heppin með tímasetninguna – ég komst í samband við marga af mínum bestu vinum í tónlist. John Adams, Oliver Knussen, Esa-Pekka Salonen – þeir voru allir farnir að huga að því að semja fiðlukonserta og ég var á réttum stað á réttum tíma,“ segir hún og bætir við: „Þetta er það sem hefur veitt mér mestan innblástur á ferlinum, að vinna með þeim sem skapa nýja tónlist. Þau þurfa á mér að halda og ég þarf á þeim að halda, og við þurfum það besta sem við getum gefið hvert öðru. Öll tónskáld eru ólík – sum vilja mikla endurgjöf frá einleikaranum í tónsmíðaferlinu og önnur ekki. En þetta er alltaf ótrúlegt ævintýri, að fylgja verki í gegnum sköpunarferlið að frumflutningi. Ég veit ekki neitt meira spennandi en að spila eitthvað sem enginn hefur áður heyrt.“

Hægt er að kaupa kort á alla tónleika Leilu Josefowicz á starfsárinu undir merkjum svörtu tónleikaraðarinnar.

Smelltu hér til að lesa nánar um svörtu röðina.