EN

26. ágúst 2020

Nýtt starfsár kynnt til leiks

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur nú inn í nýtt starfsár á miklum óvissutímum og hefur aðlagað dagskrá sína í september að þessum óvenjulegu aðstæðum. Starfsárið hefst á Klassíkinni okkar föstudaginn 4. september, glæsilegum tónleikum sem sendir verða út til landsmanna allra í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og útvarpað á Rás 1. Við fylgjum þeim tónleikum eftir með þrennum sjónvarpstónleikum í september þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Hljómsveitin mun að sjálfsögðu fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda í starfi sínu. 

Nýtt starfsár kynnt á föstudag
Stefnt er að því að almennir tónleikar fyrir áskrifendur og aðra gesti geti hafist í byrjun október. Við kynnum nýtt og fjölbreytt starfsár 2020/21 hér á vef hljómsveitarinnar næstkomandi föstudag. Þar finnur þú allar upplýsingar um dagskrá vetrarins, einleikara, listamenn, stjórnendur og auðvitað verkin sjálf. Dagskráin er að sjálfsögu kynnt með fyrirvara um breytingar eftir því hvernig gengur að ná tökum á faraldrinum.

Fjölbreytt og spennandi dagskrá
Meðal hápunkta starfsársins eru flutningur á sinfóníu nr. 5 eftir Gustav Mahler undir stjórn nýs aðalhljómsveitarstjóra Evu Ollikainen, spennandi efnisskrá með tónlist frá Spáni og Rómönsku Ameríku, Valkyrja Wagners og Harry Potter-tónleikar þar sem kvikmyndin verður sýnd með lifandi meðleik hljómsveitarinnar. Meðal einleikara eru Emanuel Ax, Benjamin Grosvenor og Sigrún Eðvaldsdóttir, sem öll flytja konserta eftir Beethoven. Pierre-Laurent Aimard og Tamara Stefanovich leika píanókonserta Bartóks og sönghópurinn frægi The King's Singers flytur hátíðlega tónlist á aðventutónleikum hljómsveitarinnar. 

Áskrifendur halda sínum sætum
Vegna samkomutakmarkana getum við ekki lofað áskrifendum sömu föstu sætum í vetur, en þau verða frátekin þar til samkomutakmörkunum hefur verið aflétt. 

Fyrirkomulag korta- og miðasölu verður kynnt nánar þegar afléttingar takmarkana fara að skýrast og við getum boðið gestum í salinn. Fylgstu með hér á vefnum og skráðu þig fyrir fréttabréfi hljómsveitarinnar til að fá nýjustu fréttirnar í tölvupósti. 

Við þökkum ykkur fyrir að sýna þessu skilning og við hlökkum til að sjá þig aftur í Hörpu.