Ólafur Kjartan staðarlistamaður Sinfóníunnar 2024/25
Ólafur Kjartan Sigurðarson er staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2024/25 og mun koma fram á þrennum tónleikum með hljómsveitinni á starfsárinu. Hann stendur nú á hátindi ferils síns og hefur síðustu ár sungið burðarhlutverk í mögum af virtustu óperuhúsum heims.
„Mér finnst þetta ótrúlegur heiður og ég hlakka óskaplega til að syngja heima. Það er orðið ansi langt síðan síðast,“
segir Ólafur Kjartan sem er fullur tilhlökkunar yfir komandi starfsári. Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands tekur í sama streng.
„Ólafur Kjartan er engum líkur, framúrskarandi söngvari og persóna sem heillar tónleikagesti út um allan heim. Við hlökkum mikið til samstarfsins við hann í hlutverki staðarlistamanns og veislnanna sem hann og hljómsveitin munu bjóða upp á ásamt Evu Ollikainen og Bjarna Frímanni Bjarnasyni.“
Ólafur Kjartan kemur fram á fyrstu áskriftartónleikum starfsársins þann 5. september en þar mun hann syngja valdar Wagner-aríur undir stjórn Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra SÍ. Ólafur hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem Wagner túlkandi á heimsmælikvarða og farið með mörg hlutverk við hina virtu Bayreuth-hátíð í Þýskalandi. Í sömu viku gefst áhugasömum tækifæri til að kynnast hinni hliðinni á staðarlistamanni vetrarins á opinni kynningu í Norðurljósum. Þar mun Elísabet Indra Ragnarsdóttir ræða við Óla Kjartan en hann mun einnig syngja valdar óperuaríur ásamt píanistanum Ian Kaplan.
Blásið verður til Óperuveislu 3. og 4. apríl þar sem Ólafur Kjartan fær til sín góða gesti sem munu flytja margar af sínum eftirlætisaríum með hljómsveitinni undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.
Klassíkin okkar verður á sínum stað 30. ágúst en þar mun Ólafur Kjartan einnig koma fram sem einsöngvari í Óðinum til gleðinar eftir Beethoven.