EN

28. júní 2019

Opið hús á Menningarnótt

Á Menningarnótt í Reykjavík 24. ágúst býður Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvenna tónleika, kl. 15 og 17. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. 

Hægt er að nálgast miða frá kl. 11 á tónleikadegi í miðasölu Hörpu og hér á vef hljómsveitarinnar.

Maxímús heimsækir hljómsveitina kl. 15

Á fjölskyldutónleikunum kl. 15 verður boðið upp á tónlistarævintýri um Maxímús Músíkús þar sem músin ástsæla villist inn á æfingu hjá sinfóníuhljómsveitinni. Þar kynnist hún tónlistinni af eigin raun og leiðir hlustendur með sér inn í heillandi hljóðheim sinfóníuhljómsveitarinnar. Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari er höfundur tónlistarævintýranna um Maxímús Músíkús og Þórarinn Már Baldursson víóluleikari myndskreytir sögurnar. Sögumaður á tónleikunum er Valur Freyr Einarsson.

Nánar um tónleikana

 

Maraþontónleikar kl. 17

Á seinni tónleikum Sinfóníunnar á Menningarnótt kl. 17 verður leikin fjörmikil og hressileg tónlist til heiðurs þeim sem lokið hafa hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu þennan dag – en einnig öllum hinum sem fylgdust með af hliðarlínunni og hvöttu sitt fólk til dáða. Tónleikarnir hefjast á Ólympíustefinu fræga eftir John Williams og þeim lýkur með hinu eina sanna hlaupalagi, stefinu vinsæla úr kvikmyndinni Chariots of Fire. Páll Óskar Hjálmtýsson lítur einnig við í lok tónleikanna og syngur nokkur lög með hljómsveitinni. Þetta verða bráðskemmtilegir tónleikar sem öll fjölskyldan getur notið saman.

Nánar um tónleikana