EN

29. september 2021

Rennur saman í eitt með sellóinu

– Viðtal við Jonathan Swensen sellóleikara

Sellóleikarinn Jonathan Swensen er aðeins tuttugu og fjögurra ára gamall en hefur sópað að sér verðlaunum í alþjóðlegum keppnum á undanförnum árum og hvarvetna hlotið frábærar viðtökur. Hann er frá Danmörku en er nú búsettur í Boston. Hann segist hafa stefnt að því að verða sellóleikari síðan hann var 12 ára, en segir síðustu ár hafa verið mótandi fyrir sig og styrkt hann enn í þeirri trú að hann gæti haft áhrif með flutningi sínum. Og hann fer fögrum orðum um hljóðfærið sitt: „Sellóið er dásamlegt hljóðfæri, maður finnur fyrir því með öllum líkamanum. Ég er með þá furðulegu kenningu að þó maður væri heyrnarlaus gæti maður spilað mjög vel á selló. Þannig að ef maður fyndi þessa góðu strauma sem finnast gegnum hljóðfærið jafnvel þó maður heyrði ekkert, er ég sannfærður um að eitthvað gott væri líka að gerast með hljóðið. Ég elska hvernig hljóðfærið er svo nátengt líkamanum, mér líður eins og ég renni saman í eitt með sellóinu á bestu stundunum. Og það er hægt að framkalla svo mikla breidd í tónlistarflutningi með því, það er þrívítt í raun.“

Sellókonsert Dvořáks er ein af perlum tónbókmenntanna og hann gjörþekkja allir sellóleikarar. Jonathan er engin undantekning á og segir hann eiga stóran sess í hjarta hans. „ Ég var bara unglingur þegar ég lærði hann fyrst. Þegar ég var yngri hlustaði ég aðeins of mikið á upptöku af konsertinum með tilteknum sellóleikara, ég vil ekki segja hver það er samt! Og það er hættan við þennan konsert, að maður detti of mikið inn í að spila hann eins og hann hefur verið spilaður fram til þessa. Rostropovitch setti til dæmis mjög skýran standard fyrir varðandi flutning á Dvorák, og það getur verið hættulegt að hlusta of mikið á hann.“

Nú eru liðin þrjú ár síðan Jonathan kom síðast fram og lék konsertinn opinberlega og er því að koma ferskur að honum aftur. „Í þetta sinn hef ég eiginlega ekki hlustað á neinar upptökur af honum, heldur einblínt á nóturnar og aðeins hlustað örfáum sinnum á upptöku með Pablo Casals til að fá hljómana fram. Casals er ekki svo truflandi hvað varðar útfærslu því hann fylgir skrifuðu tónlistinni mjög nákvæmlega. En ég er að öðru leyti mjög passasamur með að hlusta á aðra sellista, og hef raunar verið það almennt undanfarin ár,“ segir Jonathan sem segir þá þróun eflst enn í covid-ástandinu, þegar hann var mikið á eigin vegum að æfa sig. „Ég hef fundið þörf til að hlusta meira á impróvíseraða tónlist utan þess sem ég er sjálfur að fást við, því mér finnst það skila sér í mínum eigin tónlistarflutningi. Mér líður meira frjálsum þannig. Ég er að þreifa eftir hinum rétta millivegi milli þess að kunna tónlistina mjög vel, finnast samt að hver einasta nóta sé glæný fyrir mér, og vera alveg frjáls á sama tíma, allt innan ramma tónlistarinnar.“

Aðspurður um hver af þáttunum þremur í sellókonsert Dvoráks eigi stærstan stað í hjarta hans, segir Jonathan ómögulegt að svara. „Annar kaflinn er auðvitað dásamlega fallegur og endirinn á þriðja kaflanum er reyndar ein fallegasta tónlist sem hefur verið samin að mínu mati. En að öðru leyti get ég ekki gert upp á milli, þetta er ein heild sem útilokað er að aðskilja.“