EN

28. september 2021

Stigið inn í sviðsljósið

– Viðtal við Þórunni Ósk Marinósdóttur og Stefán Jón Bernharðsson

Í hverri sinfóníuhljómsveit starfa hátt í hundrað manns sem hver og einn á að baki langt og strangt nám í sinni grein. Hver leggur sitt af mörkum til heildarinnar en er um leið fær um að stíga inn í sviðsljósið sem einleikari þegar færi gefst. Haustið 2021 leika tveir leiðarar úr hljómsveitinni, Þórunn Ósk Marínósdóttir víóluleikari og Stefán Jón Bernharðsson hornleikari, einleikskonserta á tónleikum í grænni áskriftarröð. Þórunn leikur Lachrymae eftir Benjamin Britten en Stefán Jón flytur hornkonsert nr. 1 eftir Richard Strauss. Það má segja að hljóðfærin hafi verið viðkomandi tónskáldum handgengin, því að Britten var sjálfur víóluleikari en faðir Strauss var einn fremsti hornleikari Þýskalands á sinni tíð.

Skyldu þetta vera verk sem hafa lifað lengi með þeim? „Já, mjög lengi,“ segir Stefán Jón. „Þetta var einmitt fyrsti konsertinn sem ég spilaði í heild með hljómsveitinni, það var á einleikaraprófinu mínu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1998. Þessi konsert er eitt af lykilverkum hornbókmenntanna, það eru konsertarnir fjórir eftir Mozart og svo fyrri Strauss-konsertinn sem eru eins konar hornsteinar. Það er óhjákvæmilegt að maður kynnist þessu verki í sínu námi sem hornleikari.“

Þórunn Ósk á líka löng kynni af verki Brittens. „Þetta verk er búið að lifa lengi með mér, enda er þetta ein af perlunum meðal konsertverka fyrir víólu. Við eigum ekki eins stóran og ríkan sjóð og fiðluleikarar eða sellóleikarar! Ég hef spilað þetta nokkrum sinnum áður með píanói en ekki með strengjasveit, það er virkilega gaman að fá tækifæri til þess. Britten samdi verkið árið 1950 þegar hann var í miðjum óperusmíðum, þá hitti hann víóluleikarann William Primrose og ákvað að semja þetta verk fyrir hann. Þetta eru eins konar tilbrigði við stef úr lagi eftir endurreisnartónskáldið John Dowland. Það er bæði ástríða og dramatík í þessari tónlist, en hann sækir líka innblástur í endurreisnina, ekki bara laglínuna sjálfa heldur alls konar hljóma og andblæ. Svo er uppbygging verksins fremur óvenjuleg af því að víólan leikur tilbrigðin fyrst en stefið hljómar ekki fyrr en í blálokin,“ segir Þórunn.

Hvernig tilfinning skyldi það vera fyrir hljómsveitarmeðlimi sem eiga sitt  fasta sæti á sviðinu, að stíga allt í einu fremst á sviðið og taka að sér hlutverk einleikarans?

Stefán Jón segir að það sé svolítið öðruvísi tilfinning en hann sé vanur. „Maður venst því að sitja á sínum stað í hljómsveitinni á hverjum degi, en sem sólisti þarf maður að setja sig í svolítið annan gír, sem er auðvitað bara skemmtilegt. Ekki síst að gera það með sinni eigin hljómsveit og kollegum sínum, þar sem maður finnur velvilja.“ Þórunn tekur undir þetta með velviljann: „Já, það myndast alveg sérstök stemning í hljómsveitinni þegar einleikarar úr okkar röðum koma fram. Ég finn það líka þegar ég er sjálf að spila í víóludeildinni að þegar einhver annar úr hljómsveitinni stígur fram sem einleikari þá styður maður viðkomandi 100% og gleðst með þeim yfir tækifærinu.“

Á hverju ári leika einhverjir meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands einlei með hljómsveitinni en starfsárið 2020–21 voru það margfalt fleiri en í venjulegu ári. Haustið 2020 varð smám saman ljóst að þeir erlendu einleikarar sem búið var að ráða til að leika með hljómsveitinni gætu ekki komið til landsins vegna ferðatakmarkana, og þá var brugðið á það ráð að óska eftir tillögum frá meðlimum hljómsveitarinnar um konserta sem mögulega væri hægt að flytja. Þórunn Ósk nefnir sérstaklega að áhugi hljóðfæraleikaranna hafi verið mikill. „Mér fannst það frábært framtak hjá Sinfóníuhljómsveitinni að auglýsa eftir einleikurum á COVID-tímanum, en ég var líka mjög ánægð með hversu margir buðu sig fram – fleiri en hægt var að koma fyrir á þeim tónleikum sem hægt var að halda. Það er frábært að við séum með þannig sinfóníuhljómsveit að fólk treysti sér til að troða svona upp, og það er alls ekkert sjálfgefið. Það er svo allt öðruvísi að vera einleikari, maður þarf að setja sig í nýjar stellingar og meira að segja beita sér öðruvísi.“ Stefán tekur undir þetta og bætir við: „Svo fylgir líka allt annað hugarfar hlutverki einleikarans. Hornin eru til dæmis oft í bakgrunninum, veita stuðning og þá þarf maður að halda sig til baka, en einleikarinn þarf alltaf að láta í sér heyra, svo það er annað hugarfar og önnur nálgun.“

Bæði Þórunn Ósk og Stefán Jón spila á tónleikum í grænni áskriftaröð sem verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Þau eru bæði á því að best sé að velta því ekki of mikið fyrir sér að tónleikunum verði sjónvarpað beint.

„Maður getur ekkert hugsað um það,“ segir Þórunn. „En auðvitað er það heiður að fá að taka þátt í þessu. Ég hugsa aðallega til dæmis um mömmu og pabba, þau búa fyrir norðan og þetta er dýrmætt tækifæri fyrir fólk á landsbyggðinni til að bæði sjá hljómsveitina og heyra.“ „Maður lítur bara á þetta sem tækifæri og reynir að njóta þess,“ bætir Stefán við. „Maður þarf nefnilega að halda í þessa barnslegu eftirvæntingu yfir því að spila tónleika, jafnvel þegar maður er orðinn rútíneraður í faginu!“