EN

16. maí 2023

Ross Jamie Collins nýr staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Bresk-finnski hljómsveitarstjórinn Ross Jamie Collins hefur verið ráðinn í stöðu staðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2023-24.

Ross Jamie Collins er ungur að árum en hefur þegar vakið athygli í tónlistarheiminum fyrir framúrskarandi tónlistarhæfileika og mikla persónutöfra. Hann þreytti nýlega frumraun sína með Philharmonia-hljómsveitinni í Lundúnum ásamt stjörnufiðluleikaranum Randall Goosby, hann hefur nýlega stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í San Fransisco í hinni framsæknu SoundBox-tónleikaröð sveitarinnar, auk þess sem hann sneri á dögunum aftur til Sinfóníuhljómsveitarinnar í Turku eftir vel heppnaða frumraun með henni 2021. Þá stjórnaði Collins Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ársbyrjun 2023. Hann starfar nú um stundir sem Salonen-Fellow undir handarjaðri Esa-Pekka Salonen við Sinfóníuhljómsveitina í San Fransisco. Hann er nýútskrifaður úr framhaldsnámi við Colburn-konservatoríið í Los Angeles og hefur samhliða námi aðstoðað Salonen bæði heima og heiman, svo sem með Philharmonia-hljómsveitinni í Lundúnum, NDR-hljómsveitinni í Elbphilharmonie í Hamborg, Fílharmóníusveitinni í Helsinki og Orchestre de Paris, auk sinfóníuhljómsveitanna í Houston og Fíladelfíu.

0485

Ross Jamie Collins stýrir margvíslegum tónleikum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á næsta starfsári, þar á meðal tónleikum á Menningarnótt í Reykjavík, fjölskyldutónleikum Litla tónsprotans, jólatónleikum og skólatónleikum auk þess sem hann stjórnar tónleikum hljómsveitarinnar á tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum. Þá starfar Collins náið með Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra og aðstoðar hana við undirbúning fjölda verkefna til viðbótar, en þar á meðal eru nokkrir af hornsteinum sinfónískrar tónlistar á borð við níundu sinfóníu Bruckners og þriðju sinfóníu Mahlers.

Ég sá Ross fyrst stjórna í hljómsveitarstjórakeppni þegar hann var 17 ára, í efnisskrá sem spannaði allt frá Haydn og Strauss til samtímatónlistar og ég varð strax gífurlega hrifin af náttúrulegum hæfileikum hans og því hve eðlilegur hann er á stjórnendapallinum. Ungir stjórnendur þurfa vettvang til þess að þroska hæfileika sína og ég er stolt af því að Sinfóníuhljómsveit Íslands geti veitt ungum og afar hæfileikaríkum stjórnendum slík tækifæri. Ég býð Ross hjartanlega velkominn í Sinfóníufjölskylduna!

sagði Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Ross Jamie Collins er fæddur 2001 í Nottingham en fluttist sjö ára gamall til Helsinki og lærði hljómsveitarstjórn við fótskör hins mikla, finnska hljómsveitarstjóra og kennara Jorma Panula en meðal fyrstu kennara Collins var einmitt annar af lærisveinum hans, Klaus Mäkilä, sem nú er listrænn stjórnandi Orchestre de Paris og aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitarinnar í Osló. Ross Jamie Collins stofnaði sína eigin hljómsveit, Symphony Orchestra ROSSO, árið 2017 og stjórnaði sínum fyrstu hljómsveitartónleikum 15 ára gamall. Hann hlaut þriðju verðlaun í sjöundu alþjóðlegu Jorma Panula-hljómsveitarstjórakeppninni 2018.

Ég er himinlifandi að fá tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem staðarhljómsveitarstjóri. Frá fyrstu fundum mínum með hljómsveitinni fann ég hvernig andrúmsloftið sem tónlistarfólkið skapaði lét mér líða eins og heima hjá mér í Reykjavík. Ég get ekki beðið eftir því að snúa aftur í Hörpu til þess að deila meiri tónlist, brosum og hlátri með þessari frábæru hljómsveit sem veitir mér svo mikinn innblástur,

segir Ross Jamie Collins, en hann þreytti sem áður sagði frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands á Vínartónleikum í ársbyrjun 2023.