EN

23. janúar 2023

Safndiskur með verkum í flutningi Hallfríðar Ólafsdóttur og Sinfóníuhljómsveitar Íslands kominn út

Út er kominn nýr tvöfaldur safndiskur með Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem Hallfríður Ólafsdóttir er í einleikshlutverkinu. Diskurinn hefur að geyma ellefu fjölbreytt verk frá ýmsum tímum þar sem flautan er í öndvegi. Verkin voru tekin upp á árunum 1996-2014 og eru eftir Wolfgang Amadeus Mozart, Christoph Willibald Gluck, Johann Sebastian Bach, Antonio Vivaldi, Jórunni Viðar, Þorkel Sigurbjörnsson, Atla Heimi Sveinsson, Carl Nielse, Einojuhani Rautavaara, Magnús Blöndal Jóhannsson og Pál Ragnar Pálsson.Hallfríður Ólafsdóttir (1964–2020), oft kölluð Haffí, var leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 1999 til ársins 2020. Áður hafði hún verið uppfærslumaður og pikkolóleikari hljómsveitarinnar í tvö ár. Hún var kennari við Listaháskóla Íslands og MÍT. Samhliða stöðu sinni við Sinfóníuhljómsveit Íslands kom Hallfríður margoft fram sem einleikari með Sinfóníunni og öðrum hljómsveitum. Þá lét hún til sín taka í kammertónlist og kom reglulega fram með Camerarctica sem hún stofnaði ásamt félögum sínum og með Blásarakvintett Reykjavíkur. Árið 2003 var Hallfríður útnefnd bæjarlistamaður Garðabæjar og fékk einnig heiðursviðurkenningu Garðabæjar fyrir ómetanlegt starf í þágu menningar árið 2020. Hallfríður hlaut Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 17. júní 2014 fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks með verkefninu um músíkölsku músina Maxímús Músíkús.

Diskurinn ber heitið Flautan í öndvegi og er gefinn út af Smekkleysu og Sinfóníuhljómsveit Íslands í samvinnu við RÚV. Tónmeistari var Bjarni Rúnar Bjarnason.