EN

23. júní 2022

Viðtal: Sir Stephen Hough listamaður í samstarfi við Sinfóníuhljómsveitina

Breski píanóleikarinn Stephen Hough er nýr listamaður í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hough kemur tvisvar fram með hljómsveitinni í Hörpu á komandi starfsári og heldur einleikstónleika í föstudagsröðinni auk þess að vera einleikari á tónleikaferð Sinfóníunnar um Bretland vorið 2023. Fyrir í stöðu listamanns í samstarfi er Daníel Bjarnason, tónskáld og hljómsveitarstjóri, og heldur hann samstarfi sínu við Sinfóníuhljómsveit Íslands áfram.

Hough, sem nýlega var aðlaður af Elísabetu Bretadrottningu fyrir framlag sitt til tónlistar, er meðal virtustu píanóleikara heims. Hann hefur komið fram með öllum virtustu sinfóníuhljómsveitum heims og haldið einleikstónleika í helstu tónleikahúsum veraldar. Hann hefur hljóðritað yfir 60 geisladisaka sem hlotið hafa ótal verðlaun, auk þess að vera bæði tónskáld og rithöfundur, en skrif hans um tónlist birtast reglulega í blöðum á borð við Guardian og Times, auk þess sem hann hefur gefið út bæði skáldsögu og óskáldað efni. Hann var fyrsti klassíski tónlistarmaðurinn til að hljóta hin eftirsóttu MacArthur-verðlaun 2001 og var útnefndur einn af 20 helstu fjölfræðingum veraldar af tímaritinu The Economist.

Á tónleikum 12. janúar 2023 leikur Hough píanókonsert nr. 3 eftir Ludwig van Beethoven á tónleikum í gulu tónleikaröðinni undir stjórn Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Daginn eftir geta svo tónleikagestir kynnst hinni hliðinni á þessum einstaklega fjölhæfa listamanni í föstudagsröðinni í Norðurljósum, þar sem Hough leikur einleiksverk eftir Debussy, Liszt og sjálfan sig, en Hough er einnig tónskáld. Til viðbótar les Hough brot úr bók sinni og spjallar um lífið og listina. Seinni heimsókn Houghs á starfsárinu er í febrúar, en hann leikur annan píanókonsert Rakhmanínovs með hljómsveitinni undir stjórn Evu Ollikainen 23. febrúar og eru þeir tónleikar í rauðu tónleikaröðinni. Báðir konsertar fylgja svo Hough og Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikaferðinni sem farin verður í lok apríl, en hljómsveitin kemur fram í mörgum af helstu tónleikahúsum Bretlands, svo sem Cadogan Hall í Lundúnum, Symphony Hall í Birmingham Usher Hall í Edinborg.