EN

20. júní 2022

Sæunn Þorsteinsdóttir nýr staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari verður staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands á komandi starfsári og vinnur að fjölbreyttum verkefnum með hljómsveitinni, þar með talið frumflutningi á nýjum sellókonserti eftir Veronique Vöku.

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

„Sæunn er afar metnaðarfull listakona sem hefur lagt mikið á vogarskálarnar þegar kemur að frumsköpun í tónlist á Íslandi. Frumkvæði hennar og samstarf við mörg af okkar fremstu tónskáldum hefur leitt af sér dýrmæt tónverk sem munu fylgja okkur inn í framtíðina. Sæunn er hugrökk, fer sínar eigin leiðir og hrífur fólk með sér. Við er afskaplega glöð að fá Sæunni til liðs við okkur næsta starfsár sem staðarlistamann.”

Sæunn Þorsteinsdóttir:

„Það er mér bæði heiður og ánægja að gefa sellóinu sviðið og láta það njóta sín í aðalhlutverki á komandi tónleikaári með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frá því að ég spilaði fyrst með hljómsveitinni þegar ég var enn nemandi við Juilliard, og í gegnum tíðina hefur mér alltaf þótt vænt um að koma heim og spila á heimavelli með heimaliðinu. Ég er mjög spennt fyrir samvinnunni með Evu Ollikainen, Nathanael Iselin og Dmitriy Matvienko, ásamt samvinnu með hljómsveitinni allri. Sérstaklega hlakka ég til að spila ný verk eftir Veronique Vöku, Gity Razaz og Jane Antonia Cornish ásamt meistaraverkum eftir Bach, Dvorak og Sjostakovítsj. Ég hlakka mikið til að deila þessari frábæru tónlist með tónleikagestum í Hörpu og útvarpshlustendum um viða veröld.“

Fjölbreytt tónlistarstarf og nýsköpun
Sæunn býr og starfar í Bandaríkjunum og hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitina í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveitina í í Toronto, Elbphilharmonie-hljómsveitina og Sinfóníuhljómsveit BBC. Hún hefur komið fram í mörgum af helstu tónleikahúsum heims á borð við Carnegie Hall, Suntory Hall og Barbican-listamiðstöðina í Lundúnum auk þess að láta til sín taka í heimi kammertónlistar þar sem hún er fastagestur á hátíðum á borð við þær í Marlboro og Prussia Cove, og hefur unnið með listamönnum á borð við Itzhak Perlman, Mitsuko Uchida og Richard Goode. Sæunn er ötull talsmaður nýrrar tónlistar, hefur pantað fjölda verka og frumflutt verk eftir íslensk og erlend tónskáld en geislaplata hennar, Vernacular, sem helguð var tónlist íslenskra tónskálda fyrir einleiksselló kom út hjá Sono Luminus útgáfunni 2019. Meðal íslenskra tónskálda sem Sæunn hefur starfað náið með eru Daníel Bjarnason, Páll Ragnar Pálsson, Halldór Smárason og Þuríður Jónsdóttir. Sæunn hefur undanfarin ár gegnt kennslustöðu við Washington-háskóla í Seattle en færir sig um set til tónlistar-háskólann í Cincinnati í Ohio í haust.

 

Óður til sellósins
Sæunn hefur samstarfið við Sinfóníuhljómsveit Íslands í haust með tónleikum fimmtudagskvöldið 29. september þar sem hún frumflytur nýjan sellókonsert eftir Veronique Vöku, Gemæltan. Á sömu tónleikum leikur Sæunn glænýja útgáfu á verki Daníels Bjarnasonar, Bow to String, fyrir selló og sinfóníuhljómsveit, en Sæunn pantaði verkið upphaflega af Daníel og kom það út á hljómplötu hans Processions í flutningi hennar 2010. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum, sem eru í gulri tónleikaröð, verður Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri SÍ.

Daginn eftir kemur Sæunn svo fram í föstudagsröðinni ásamt sellóleikurum hljómsveitarinnar og flytur spennandi efnisskrá sem um leið er eins konar óður til sellósins, en meðal verka sem hljóma þar eru annað nýtt verk eftir Veronique Vöku, Messagesquisse eftir Pierre Boulez og Skógarkyrrð Antoníns Dvořák í útsetningu fyrir selló og sellósveit.

 

Sellósvítur og Sjostakovítsj
Þann 26. febrúar 2023 heldur Sæunn útgáfutónleika á nýrri hljóðritun sinni á Sellósvítum Bachs í Norðurljósum og leikur þar þrjár af svítunum ásamt verkum Benjamins Brittens og Þuríðar Jónsdóttur. Sæunn kemur aftur fram með Sinfóníuhljómsveitinni 30. mars í rauðri tónleikaröð og flytur þá Sellókonsert nr. 1 eftir Dmitríj Sjostakovítsj undir stjórn Dmitry Matvienko, en Matvienko bar sigur úr býtum í hinni virtu Malko-hljómsveitarstjórakeppni 2021.

Sæunn á þegar að baki langt og farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands en hún kom síðast fram með hljómsveitinni 2019 þegar hún flutti sellókonsert Haydns nr. 2 í D-dúr með nýrri kadensu eftir staðartónskáld hljómsveitarinnar, Önnu Þorvaldsdóttur.

Hægt er að kaupa kort á alla tónleika Sæunnar á starfsárinu undir merkjum svörtu tónleikaraðarinnar.

Smelltu hér til að lesa nánar um svörtu röðina.