EN

9. maí 2022

Skólatónleikarnir Dýravinir

Nemendur Skólahljómsveitar Austurbæjar og hljóðfæraleikarar Sinfóníunnar leiða saman hesta sína á sviði Eldborgar þriðjudaginn 24. maí kl. 11 þar sem verkið Dýravinir verður flutt. Þetta verða sannkallaðir stórtónleikar þar sem tæplega 100 manna hljómsveit kemur saman undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar.

Farið verður í ferðalag á milli heimsálfanna og ýmsar dýrategundir kynntar sem þar eiga bústað, undir frábærri leiðsögn Braga Valdimars Skúlasonar sem jafnframt er textahöfundur. Myndskreytingar voru unnar af nemendum í Laugarnesskóla en þeim verður varpað upp meðan á tónleikunum stendur. 

Nemendum í 2. og 3. bekk þeirra skóla er tengjast Skólahljómsveit Austurbæjar er boðið á tónleikana ásamt kennurum og fylgdarfólki, og eru þeir því ekki opnir almenningi.