EN

18. mars 2022

Sinfónían hlýtur þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna voru kynntar í gær og hlaut Sinfóníuhljómsveit Íslands þrjár tilnefningar í flokknum Tónlistarviðburður ársins, fyrir þrjá stóra viðburði á árinu 2021. 

AIŌN eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Ernu Ómarsdóttur hlaut tilnefningu sem Tónlistarviðburður ársins í flokki tónleika í flokknum Sígild og samtímatónlist. AIŌN var samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslenska dansflokksins og var flutt í Eldborg í október við fádæma góðar undirtektir. Þá er Græna röðin með Sinfóníuhljómsveit Íslands á RÚV tilnefnd sem Tónlistarviðburður ársins í flokki hátíða. Loks hlutu stórtónleikarnir NýKlassík og Sinfó tilnefningu sem Tónlistarviðburður ársins í flokknum Popp, rokk, rapp & hipp hopp og raftónlist, en tónleikarnir voru haldnir í þrígang í ágúst síðastliðnum og fluttu þau GDRN, Flóni, Bríet, Joey Christ, Logi Pedro, Unnsteinn, JóiPé og Króli, Cell7 og Reykjavíkurdætur lög sín í nýjum órafmögnuðum útsetningum fyrir sinfóníuhljómsveit í Eldborg.

Sinfóníuhljómsveit Íslands kom auk þess að ýmsum fleiri verkefnum sem hlutu tilnefningu í ár. Þar á meðal er Björk Orkestral, Live from Reykjavík, sem tilnefnt er sem Tónlistarviðburður ársins í flokki hátíða í flokknum Sígild og samtímatónlist, en hljómsveitin kom fram með Björk á þrennum tónleikum. Þá er Anna Þorvaldsdóttir tilnefnd í flokknum Tónverk ársins í flokki Sígildrar og samtímatónlistar fyrir verkið CATAMORPHOSIS, en verkið var pantað í af Fílharmóníusveitinni í Berlín, Fílharmóníusveitinni í New York og Sinfóníuhljómsveit Íslands og frumflutt á Íslandi á tónleikum hljómsveitarinnar í júní í fyrrra. Einnig var Þuríður Jónsdóttir tónskáld tilnefnd í flokknum Tónverk ársins fyrir fiðlukonsertinn LEIKSLOK, sem Una Sveinbjarnardóttir frumflutti ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum hljómsveitarinnar í júní. 

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt Hörpu miðvikudaginn 30. mars og verður verðlaunaafhendingunni sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV.