EN

23. mars 2022

Samstöðutónleikar með Úkraínu í Hörpu 24. mars

Öll miðasala rennur óskipt til neyðarsöfnunar Þroskahjálpar fyrir fatlað fólk í Úkraínu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur sérstaka samstöðutónleika með Úkraínu næstkomandi fimmtudag og mun öll miðasala renna óskipt til neyðarsöfnunar Þroskahjálpar fyrir fatlað fólk í Úkraínu.

Fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað í stríðsátökum og staða þess í Úkraínu er grafalvarleg. Fatlað fólk getur ekki flúið vegna aðstæðna sinna, getur illa orðið sér út um mat, lyf og aðrar nauðsynjar. Einnig aukast líkur á ofbeldi, að fatlað fólk verði skilið eftir og að það sé án aðstoðar og stuðnings. Ástandið versnar dag frá degi og árásir rússneskra stjórnvalda á óbreytta borgara í Úkraínu halda áfram.

Á samstöðutónleikunum verða leikin verk eftir Mozart, Bach og Beethoven ásamt verki eftir úkarínska tónskálidið Valentin Silvestrov. Tónleikunum lýkur svo með því að hljómsveitin leikur þjóðsöngva Íslands og Úkraínu. Hljómsveitarstjóri er Kornilios Michailidis og einleikari er Simos Papanas, einn fremsti fiðluleikari Grikklands.

Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitarinnar og ríkistjórnar Íslands og mun Ríkissjónvarpið sýna beint frá tónlekunum á RÚV 2 og seinni hluta tónleikanna á RÚV 1. Þeim sem vilja leggja málefninu lið er bent á á reikning neyðarsöfnunarinnar Þroskahjálpar:

Kennitala: 521176-0409
Reikningsnúmer: 526-26-5281

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

“Eins og aðrir Íslendingar höfum við tekið fréttir af innrásinni í Úkraínu afar nærri okkur. Við störfum í alþjóðlegu umhverfi og stríðið í Úkraínu snertir marga í hljómsveitinni með beinum eða óbeinum hætti.

Það er ómögulegt fyrir fólk á okkar friðsæla Íslandi að gera sér í hugarlund hvernig það er að ganga í gegnum þær hörmungar sem nú dynja á úkraínsku þjóðinni og það er skiljanlegt ef fólk spyr sig hverju við getum áorkað, eins fá og við erum. Við teljum hins vegar mikilvægt að rétta fram hjálparhönd og sýna í verki að Íslendingar standa með almennum borgurum í Úkraínu og það er mikill heiður fyrir Sinfóníuhljómsveitina að fá að fóstra þessa fallegu hugmynd.

Staða fatlaðra á stríðstímum er sérlega erfið og þetta er þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar, en vill stundum gleymast þegar áföllin dynja á. Þess vegna völdum við að leggja neyðarsöfnuninni lið og ég vona að sem allra flestir leggi leið sína í Hörpu á fimmtudaginn. Auk tónleika Sinfóníunnar verður fjölbreytt dagskrá í boði fyrir unga sem aldna frá kl. 17:30 í Hörpu. Mér finnst mikilvægt að við eigum kost á því að koma saman, sýna stuðning og finna samhuginn.”

Aðgangur dagskránni í Hörpuhorni er ókeypis og allir velkomnir. Allur ágóði af veitingasölu í Hörpu, veitingastöðunum Hnoss og La Primever á tóleikakvöldi mun einnig renna til hjálparstarfsins.

17:30—18:00 Maxímús Músíkús býður til fjölskyldustundar með Dúó Stemmu.

18:00—18:20 Mikolaj Ólafur Frach píanóleikari flytur Sónötu í b-moll op. 35 eftir Chopin.

18:20—18:40 Violetta: Alexandra Chernyshova sópran og Rúnar Þór Guðmundsson tenór flytja söngdagskrá ásamt Helga Má Hannessyni píanóleikara.

18:40—19:00 Blásarahópur Sinfóníuhljómsveitar Íslands leikur dægurperlur.

19:00—19:20 Íslenska óperan: Karin Torbjörnsdóttir mezzo-sópran og Elena Postumi píanóleikari.

 

Nánari upplýsingar veitir Margrét Ragnarsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í síma 820 1955 og margret.ragnarsdottir@sinfonia.is.