EN

9. nóvember 2022

Tónleikaferð til Bretlands 2023

Sinfóníuhljómsveit Íslands fer í tónleikaferð til Bretlands í apríl og heldur sjö tónleika undir stjórn Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar. Einleikari í ferðinni verður Stephen Hough, sem er jafnan talinn í hópi virtustu og fjölhæfustu píanóleikara samtímans. 

Verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, METACOSMOS, verður flutt á öllum tónleikum í ferðinni. Önnur verk á efnisskránni eru píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov og píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven auk 5. sinfóníu Tsjajkovskíjs. 

Hljómsveitin mun leika í nokkrum helstu tónleikasölum Bretlands. Tónleikaferðin er farin í kjölfar velheppnaðrar ferðar hljómsveitarinnar um Bretland árið 2020 en þá komu strax fram óskir um að fá hljómsveitina sem fyrst aftur í heimsókn. Hljómsveitin hlaut mikið lof og gaf gagnrýnandi Reviews Gate tónleikunum í Nottingham fimm stjörnur og sagði: „Blóðheit spilamennska ásamt stefnufastri túlkun skildi áheyrendur
eftir þyrsta í að heyra meira.“ 

Tónleikadagskrá:

20. apríl kl. 19:30
Cadogan Hall, London

21. apríl kl. 19:30
Symphony Hall, Birmingham

23. apríl kl. 15:00
Usher Hall, Edinburgh

25. apríl kl. 19:30
Bridgewater Hall, Manchester

26. apríl 19:30
Royal Concert Hall, Nottingham

27. apríl kl. 19:30
St. David's Hall, Cardiff

28. apríl kl. 19:45
The Anvil, Basingstoke