EN

20. janúar 2022

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2022 – viltu taka þátt?

Prufuspil fara fram 21. og 22. mars 2022

Prufuspil fyrir þátttöku í Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2022 verða haldin í Hörpu mánudaginn 21. og þriðjudaginn 22. mars 2022. Umsókn um þátttöku í prufuspilinu er opin öllum tónlistarnemendum sem lokið hafa miðprófi.

Hljómsveitarnámskeið Ungsveitarinnar 2022 stendur frá mánudeginum 12. september til sunnudagsins 25. september. Að þessu sinni verður verkefni Ungsveitarinnar hin glæsilega sinfónía nr. 2 eftir Rakhmanínov undir stjórn Kornilios Michailidis, staðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hljómsveitarnámskeiðinu lýkur með tónleikum í Eldborg, Hörpu, sunnudaginn 25. september kl. 17:00. 

Umsóknareyðublað fyrir Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2022 er að finna hér. Það þarf að fylla út og senda í tölvupósti á Hjördísi Ástráðssdóttur fræðslustjóra á hjordis.astradsdottir@sinfonia.is. Umsækjendur fá staðfestingu á að umsókn hafi verið móttekin ásamt prufuspilspörtum. Prufuspilstímar verða sendir öllum umsækjendum eftir að umsóknarfrestur er runninn út. Allir nemendur þurfa að sækja um til að eiga möguleika á þátttöku, einnig þeir sem hafa leikið áður með Ungsveitinni. Umsóknarfrestur er til miðnættis 6. mars nk.

Ungsveitin er hugsuð sem vettvangur fyrir samspil tónlistarnemenda sem lokið hafa miðprófi. Henni er ætlað að gefa nemendum tækifæri á að kynnast starfsumhverfi atvinnuhljóðfæraleikara, auk þess sem nemendur fá að starfa með hljóðfæraleikurum og hljómsveitarstjórum á heimsmælikvarða.

Framkvæmd prufuspilanna og fyrirkomulag þeirra er háð gildandi sóttvarnareglum og er auglýst með fyrirvara um breytingar.

Smelltu hér til að opna umsóknareyðublaðið.