EN

29. október 2018

Úrslit í einleikarakeppni Sinfóníunnar og LHÍ

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskóli Íslands

Helgina 26. og 27. október 2018 fór fram árleg einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands. Alls tóku 15 ungir einleikarar þátt og stunda þeir allir söng- eða hljóðfæranám á bakkalárstigi.

Sigurvegarar í einleikarakeppninni

Fjórir urðu hlutskarpastir í keppninni að þessu sinni og koma fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg þann 17. janúar. Það eru þau Guðbjartur Hákonarson, fiðluleikari, Harpa Ósk Björnsdóttir, söngkona, Hjörtur Páll Eggertsson, sellóleikari og Silja Elísabet Brynjarsdóttir, söngkona. Þau munu koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn hinnar brasilísku Ligiu Amadio á tónleikum í Eldborg þann 17. janúar 2019.

Sigurvegararnir fjórir eru öll í BA-námi í tónlist, hérlendis og erlendis. Guðbjartur Hákonarson (f. 1994) stundar tónlistarnám hjá Mauricio Fuks við Jacobs School of Music, Indiana University. Hjörtur Páll Eggertsson (f. 1998) er í námi hjá Morton Zeuthen við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium. Silja Elsabet Brynjarsdóttir (f. 1991) hjá Alex Ashworth við The Royal Academy of Music og Harpa Ósk Björnsdóttir (f. 1994) er nemi á söngbraut Tónlistardeildar LHÍ hjá Þóru Einarsdóttur, Kristni Sigmundssyni, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Hönnu Dóru Sturludóttur.

Dómnefndin var að þessu sinni skipuð Árna Heimi Ingólfssyni, listrænum ráðgjafa hljómsveitarinnar og formanni dómnefndar, Daða Kolbeinssyni óbóleikara, Signýju Sæmundsdóttur, söngkonu, Sigurði Bjarka Gunnarssyni, sellóleikara og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, píanóleikara.

Fjölbreytt og spennandi efnisskrá

Fjölbreytt tónlist mun hljóma á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 17. janúar næstkomandi. Sellókonsert Elgars, Fiðlukonsert Sibeliusar, aríur og sönglög eftir Mozart, Bernstein, Charpentier, Bizet, Mahler og Sibelius.

Nánar um tónleikana