EN

26. nóvember 2021

Barokksöngvarinn Benedikt

Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari tekinn tali

Benedikt syngur Bach og Händel er yfirskrift aðventutónleika hljómsveitarinnar. Þá flytur einn fremsti flytjandi okkar Íslendinga á sviði barokktónlistar, Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari, tvær aríur úr Messíasi eftir Händel, en verkið hefur fylgt Benedikt frá því að hann hóf nám og hefur hann flutt það ótal sinnum á ferli sínum. Önnur aría eftir Händel, Waft Her, Angels úr óratóríunni Jeptha verður einnig flutt. „En maður fær sjaldnar tækifæri til að flytja hana þar sem verkið er ekki eins oft flutt og Messías,“ segir Benedikt. „Händel samdi þetta verk seint á ævinni og arían er alveg ótrúlega falleg, algjör gimsteinn fyrir tenórsöngvara.“ 

Benedikt hefur sérhæft sig í flutningi barokktónlistar og er eftirsóttur flytjandi um allan heim. Hann segir barokkformið ólíkt hefðbundnu óperusöngformi, það krefjist annarar nálgunar og öðruvísi hæfni en þegar fengist er við Verdi eða Wagner. „Þetta er í raun gjörólíkt hljóðfæri þó að það heiti vissulega líka tenór,“ segir hann. Mörg barokktónverk eru trúarlegs eðlis og kallast það skemmtilega á við fjölskyldu Benedikts, sem er sonur Margrétar Bóasdóttur söngkonu og söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, og séra Kristjáns Vals Ingólfssonar. Lá það alltaf fyrir að hann legði fyrir sig flutning kirkjulegrar tónlistar? „Nei, bara alls ekki. Ég hafði sem barn hvorki sérstakan áhuga á söng né á guðfræði. Ég var samt auðvitað tekinn með, svaf á bekknum í messunni og las bækur meðan mamma stjórnaði kóræfingum. Ætli þetta hafi ekki bara farið í undirmeðvitundina, því það var ekki fyrr en ég fór í MH og byrjaði í kórnum þar hjá Þorgerði Ingólfsdóttur, sem ég byrjaði virkilega að fá áhuga á klassískri tónlist og söng,“ segir Benedikt.

Benedikt hlaut Opus Klassik-verðlaunin árið 2020 fyrir einstakan flutning á Jóhannesarpassíunni eftir Johann Sebastian Bach, en hana flutti hann í nýstárlegri útgáfu ásamt aðeins orgel- og semballeikara og slagverksleikara í beinni útsendingu frá Tómasarkirkjunni í Leipzig á föstudaginn langa það ár, sem hluta af Bach-hátíðinni þar í borg. Tugþúsundir fylgdust með flutningnum á netinu, en Benedikt og félagar hans fluttu Jóhannesarpassíuna einnig fyrir fullri Hallgrímskirkju fyrr sama ár. Aðspurður um tilurð verkefnisins segir hann hugmyndina hafa orðið til í samtali við Steven Walter, stjórnanda Beethoven-hátíðarinnar í Bonn. „Ég stökk inn í flutning á Matteusarpassíunni í Berlín með fimm klukkustunda fyrirvara og á þeim tónleikum var Walter staddur. Hann kom til mín eftir tónleikana og spurði hvort ég teldi vera hægt að flytja Jóhannesarpassíuna með þessum hætti; einn með sembal og orgeli og svo slagverki. Mér fannst þetta strax geggjuð hugmynd,“ segir Benedikt, sem síðan útfærði hugmyndina og útsetti ásamt hljóðfæraleikurum verksins. „Þannig að þetta var sameiginlegt verkefni sem hlaut strax mikla athygli og það var ótrúlegur fjöldi sem horfði á útsendinguna. Í Bandaríkjunum hlaut flutningurinn líka mjög mikla athygli og við erum á leið í tónleikaferð með Jóhannesarpassíuna um austurströnd Bandaríkjanna og Kanada nú í nóvember.“ 

Steven Walter hefur ráðið Benedikt sem staðarlistamann við Beethovenhátíðina í Bonn í vetur, þar sem hann verður með þrenna tónleika þar sem hann fær frjálsar hendur. Skyldi eitthvað af þeim líkjast Jóhannesarpassíukonseptinu? „Já, eitt þeirra er aðeins skylt þessu, líka tónlist eftir Bach. Svo verð ég með annað verkefni sem hefur eitthvað að gera með Winterreise eftir Schubert, í mjög svo öðruvísi búningi,“ segir Benedikt leyndardómsfullur. Sem fyrr segir kemur Benedikt fram á aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem markar upphaf jólaundirbúnings hljómsveitarinnar. En hvað skyldi Benedikt sjálfur hlusta á um jólin? „Yfirleitt er ég að flytja Jólaóratóríu Bachs nánast stanslaust um jólin, með að minnsta kosti tíu tónleika í nóvember og desember. Þannig að ég hlusta eðli málsins samkvæmt mikið á Jólaóratóríuna, og ég fæ eiginlega aldrei nóg af henni. En svona til mótvægis við hana hlusta ég oft á Nat King Cole og Bing Crosby heima um jólin.“