Clara Manaud ráðin í stöðu leiðara í fagottdeild
Clara Manaud hefur verið fastráðin í stöðu leiðara í fagottdeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands að loknu sex mánaða reynslutímabili í hljómsveitinni.
Clara er alin upp í tónlistarfjölskyldu og hóf að læra á fagott aðeins sex ára gömul við Tónlistarháskólann í Bordeaux í Frakklandi. Sautján ára gömul hóf hún nám hjá Carlo Colombo við Conservatoire National Supérieur de Musique et de Danse de Lyon. Hún lauk þar námi með meistaragráðu og sérstökum heiðursverðlaunum.
Clara hélt áfram námi í München hjá Dag Jensen og lauk öðru meistaranámi í samtímatónlist með láði. Að námi loknu starfaði hún sem leiðari fagottdeildar Fílharmóníusveitar Kaupmannahafnar og hóf árið 2023 að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Auk þess hefur Clara leikið með mörgum helstu sinfóníuhljómsveitum Evrópu sem gestaleiðari, þar á meðal Orchestra dell'Accademia Nazionale di Santa Cecilia, Gautaborgarsinfóníunni, Gewandhaushljómsveitinni í Leipzig, Óperuhljómsveitunum í Rómaborgar, Lyon, Flórens og Frankfurt, hljómsveitinni í Lausanne, Þjóðarhljómsveitinni í Lille o.fl.
Clara hlaut verðlaunin „Meilleur Talent“ í Talents Classique keppninni í Frakklandi árið 2018, heiðursviðurkenningu í Aeolus-keppninni í Þýskalandi árið 2018 og gullverðlaun í Manhattan-keppninni árið 2019. Í maí 2022 hlaut hún heiðursviðurkenningu í keppni á vorhátíðinni Prag og í júlí sama ár hlaut hún önnur verðlaun í Gillet-Fox keppninni í Bandaríkjunum.
Clara er Püchner-listamaður og leikur á fagott af gerðinni "Superior”