EN

14. september 2021

Frumkvöðull harmóníkunnar

Viðtal við Geir Draugsvoll

Norski harmóníkuleikarinn Geir Draugsvoll hefur um áratuga skeið verið meðal hinna fremstu í sínu fagi á heimsvísu. Hann hefur leikið á tónleikum víða um heim, bæði einsamall og með virtum hljómsveitum, gefið út plötur auk þess sem hann er prófessor við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Draugsvoll leikur tvo konserta eftir rússneska tónskáldið Sofiu Gubaidulinu með Sinfóníuhljómsveit Íslands á starfsárinu og má segja að um endurkomu sé að ræða því að meira en 30 ár eru liðin síðan Draugsvoll lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói, tuttugu og eins árs gamall – og var þá fyrsti harmóníkuleikarinn til að leika einleik með sveitinni. 

Hvernig skyldi það hafa æxlast að piltur úr norskum fjallabæ skyldi verða einn fremsti túlkandi samtímatónlistar á harmóníku í heiminum? „Ég er fæddur og uppalinn í Voss, sem er fjallabær í vestur-Noregi,“ segir Draugsvoll. „Ég var átta ára gamall og hafði þegar gengið í forskóla í tónlist þegar ég fór í fyrsta harmóníkutímann. Raunar var mikil harmóníkumenning í bænum, þannig að engum þótti skrýtið þegar ég bað um að fá að læra á hljóðfærið. Í bekknum mínum voru tíu nemendur og við vorum átta sem æfðum á klassíska harmóníku. Svo það má kannski segja að í Voss hafi maður fyrst þótt skrýtinn ef maður spilaði ekki á harmóníku!“, segir Draugsvoll og hlær. „Ég man enn hrifninguna sem hríslaðist um mig þegar ég heyrði fyrst í hljóðfærinu – allir þessir takkar og öll litbrigðin!“

Draugsvoll er ötull flytjandi samtímatónlistar og hefur starfað náið með Sofiu Gubaidulinu í nærri þrjá áratugi. „Það var í Danmörku sem ég hitti Gubaidulinu í fyrsta sinn, árið 1994,“ segir hann. „Þar var um áratugaskeið haldin hátíð helguð samtímatónlist sem hét Lerchenborg Musikdage, og þangað var okkur báðum boðið. Við fundum einhvern sameiginlegan tón strax meðan á æfingunum stóð. Ég hreifst mjög af djúpum, skínandi augum hennar og persónutöfrum, og hlustaði gaumgæfilega á það hvernig hún brást við tónlistinni og tjáði hugsanir sínar um hana. Ég held að henni hafi þótt vænt um að ég reyndi að nálgast tónlist hennar á mjög einlægan hátt. Þarna var fræjunum sáð og þau báru svo ávöxt í hinu stóra verki „Fachwerk“ sem hún samdi fyrir mig árið 2009.“

Það verk hefur einmitt orðið miðpunktur í tónlistarferli Draugsvoll og ekki hefur liðið það ár að hann flytji það ekki oftar en einu sinni. „Gubaidulina hefur heyrt mig flytja Fachwerk yfir 30 sinnum á tónleikum víða um heim, og það að fá viðbrögð hennar svo oft hefur auðvitað dýpkað túlkun mína og skilning á verkinu til mikilla muna. Fyrir mig hefur það verið einstakur innblástur að fá að vinna svo náið með einum sterkasta persónuleika samtímatónlistar. Hún hefur einstakan hæfileika til að láta jafnvel skrýtnustu hljóð hvers hljóðfæris eiga sinn eðlilega stað í tónlistinni, og getur fundið nýja liti og tjáningu sem maður vissi ekki áður að væru til.“

Geir Draugsvoll hefur nokkrum sinnum áður komið til Íslands til tónleikahalds, í fyrsta sinn árið 1988 þegar hann tók þátt í Tónlistarhátíð ungra norrænna einleikara sem fór fram í Reykjavík. „Ég á afar góðar minningar frá tónleikum mínum á Íslandi, þær spanna meira en 30 ár,“ segir Draugsvoll. „Fyrsta heimsóknin 1988 er mér sérlega minnisstæð. Þarna var ný kynslóð norrænna einleikara að kveða sér hljóðs, meðal annars Leif Ove Andsnes og Áshildur Haraldsdóttir, og við héldum öll einleikstónleika auk þess að spila með Sinfóníunni. Þetta eru allt frábærir tónlistarmenn og það var ótrúlega spennandi að vera í félagsskap þeirra og sýna hvað í mér bjó. En ég á líka aðrar ánægjulegar minningar frá Íslandi, til dæmis af því að flytja með Caputhópnum verk eftir Þuríði Jónsdóttur. Ég lék síðast í Norræna húsinu árið 2019 og hlakka mjög til að koma aftur til þessa dásamlega lands!“

Draugsvoll tengist Íslandi einnig sem kennari, því að nokkrir íslenskir harmóníkunemendur hafa verið nemendur hans í Kaupmannahöfn undanfarin ár. „Ég verð að segja að það kom mér ánægjulega á óvart að uppgötva alla þessa snjöllu harmóníkuleikara sem Ísland hefur eignast á síðustu árum! Íslensku nemendurnir eru allir ótrúlega duglegir og metnaðarfullir. Jón Þorsteinn Reynisson hóf nám hjá mér fyrir næstum áratug, síðan bættust við Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir og Jónas Ásgeir Ásgeirsson og saman stofnuðu þau tríóið Ítríó sem er algjörlega á heimsmælikvarða. Svo kom til mín Flemming Viðar Valmundsson sem lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir rúmu ári. Þetta hæfileikaríka fólk spratt ekki úr engu. Það eru augljóslega færir kennarar á Íslandi sem kunna að glæða áhuga nemenda sinna. Með þessari glæsilegu kynslóð er ég viss um að framtíðin fyrir harmóníkuleik á Íslandi er björt.“