EN

20. nóvember 2024

Liam Kaplan ráðinn í stöðu píanóleikara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands

Liam Kaplan hefur verið fastráðinn í stöðu píanóleikara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands að loknu hæfnisprófi og sex mánaða reynslutímabili. Hljómsveitin býður Liam velkominn til starfa.

Liam er fæddur í Bandaríkjunum árið 1997. Hann lauk bakkalárgráðu við Oberlin Conservatory þar sem hann lærði píanóleik hjá Alvin Chow og tónsmíðar hjá Stephen Hartke. Á námstíma sínum hlaut Kaplan ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir píanóleik þ.á.m. vann hann Aspen ACA píanókeppnina árið 2019 og hlaut verðlaun fyrir píanóleik sinn við Oberlin skólann 2020.

Liam Kaplan hefur komið fram sem einleikari með Oberlin Sinfonietta, Oberlin Orchestra, og Aspen Conducting Academy Orchestra. Liam var meðlimur Aspen Contemporary Ensemble árin 2022–23. Hann hefur einnig komið fram á ýmsum tónleikaröðum hér á Íslandi, þar á meðal Tíbrá í Salnum Kópavogi, með Kammermúsíkklúbbnum og 15:15 og gefið út tvær einleiksplötur.