EN

20. febrúar 2024

Mikilvægt samtal við hljómsveitina

– Vera Panitch segir frá fiðlukonserti Carls Nielsen

Vera Panitch fæddist í Kaupmannahöfn og hóf nám við Konunglega tónlistarháskólann þar í borg einungis 15 ára gömul. Eftir að hafa lokið prófum þaðan lá leiðin meðal annars til Bandaríkjanna þar sem hún sótti einkatíma. Vera kom til Íslands árið 2016 og tók við starfi 2. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands 23 ára að aldri, en hún hafði áður leikið með til að mynda Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar, Dönsku útvarpshljómsveitinni og Dönsku kammersveitinni. Þá hefur Vera borið sigur úr býtum í alþjóðlegum fiðlukeppnum og hefur komið víða fram sem einleikari. Hún hlakkar þannig mikið til að takast á við fiðlukonsert Carls Nielsen með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn danska hljómsveitarstjórans Christian Øland.. Við byrjuðum á að spyrja hana hvort konsertinn, sem er ein af höfuðsmíðum fiðlutónbókmenntanna á 20. öld, hafi fylgt henni lengi.

UNDIRBÚNINGURINN TEKUR MÖRG ÁR

„Já, við getum sagt það. Ég lærði hann áður en ég hóf nám í Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og ég spilaði fyrsta kaflann úr konsertinum með hljómsveit þegar ég var 16 ára í Óðinsvéum, en þetta var fyrsti stóri konsertinn minn sem einleikari með hljómsveit,“ segir Vera sem bætir við að í vetur leiki hún konsertinn í heild sinni í fyrsta skipti með hljómsveit, fyrst í Búlgaríu og svo í Hörpu. En hvernig hefur Vera háttað undirbúningi sínum fyrir það að leika konsertinn? „Það hjálpar auðvitað að ég lék hann allan í Konunglega tónlistarháskólanum og þá lék ég hann til að mynda með strengjasveit sem skipuð var nemendum en ég var konsertmeistari hennar. Ég bý að þeirri reynslu, enda er þetta mjög erfitt verk að flytja,“ segir Vera og tekur fram að undirbúningur fyrir svona konsert hefjist ekki tveimur dögum fyrir flutninginn; hann taki marga mánuði og jafnvel ár. „Maður þarf helst að læra verkið, renna því í gegn með píanói og leyfa því svo að hvíla í einhvern tíma en taka það svo upp aftur,“ segir Vera sem segist þannig undirbúa sig sem best.

DRÓ EIGINMANNINN TIL ÍSLANDS

Þótt æfingarnar taki á nýtur Vera skilnings heima við – enda er eiginmaður hennar, Páll Palomares, leiðari annarrar fiðlu við Sinfóníuhljómsveit Íslands. „Við kynntumst í Danmörku – ég var að vinna í Kaupmannahöfn og hann í Randers. Ferðalögin á milli voru farin að verða svolítið þreytandi,“ segir Vera. „Þegar auglýst var prufuspil fyrir tvær fiðlustöður á Íslandi fannst mér upplagt að við tækjum þátt í því, enda hafði ég aldrei komið til Íslands,“ segir Vera og bætir við að hún hafi hálfvegis þurft að draga Pál í prufuspilið, því hann hefði ekki hugsað sér að flytja heim strax. „Þegar kom í ljós að við höfðum bæði unnið var bara eins og þessi ákvörðun hefði verið tekin fyrir okkur,“ segir Vera. Þau Páll eiga nú fjögurra ára tvíbura sem auka enn á lífið og fjörið á þessu músíkalska heimili.

EINLEIKARINN LEGGUR Á DÝPIÐ

Fiðlukonsert Nielsen er formlega séð í tveimur þáttum en báðir þættirnir hefjast á nokkurs konar prelúdíu þannig að kannski má lýsa því best sem verki í fjórum ólíkum köflum. „Þó svo að konsertinn eins og Nielsen skrifaði hann sé í tveimur þáttum er hann að mörgu leyti líkur því sem hljómar í hinum hefðbundna konsertstíl og fjórir hlutar hans eru býsna ólíkir; svo eru tvær kadensur í verkinu sem minnir þannig um margt á hefðbundinn fiðlukonsert,“ segir Vera og segir að notkun tónskáldsins á tónbilum minni til að mynda pínulítið á Stravinskíj og Shostakovitsj fremur en til dæmis Beethoven. „Ég myndi líka segja að verkið sé tæknilega erfitt og krefjandi og sé þannig á pari við Brahms ef ekki erfiðara,“ segir Vera og hlær. En er eitthvað sérstaklega danskt við þetta verk? „Ég myndi ekki beint segja það, enda notar tónskáldið til að mynda spænskt element í konsertinum og er að mörgu leyti leitandi,“ bætir Vera við.

En getur Vera útskýrt muninn á því að leika annars vegar í hljómsveit og svo hins vegar sem einleikari? „Hljómsveit er að mörgu leyti eins og að spila í landsliði í fótbolta, allir eru jafn mikilvægir svo að allt gangi upp en einleikshlutverkið er kannski meira eins og einstaklingsíþrótt þar sem þú ert bara einn og berð í raun og veru alla ábyrgðina. En hafandi sagt þetta þá er auðvitað einleikskonsert mikilvægt samtal einleikara við hljómsveitina og það er gríðarlega mikilvægt fyrir einleikarann að hlusta á hljómsveitina og það sem hún er að gera,“ segir Vera. Hún bendir á að oft séu konsertar þannig upp byggðir að hljómsveitin leiki eitthvert stef sem einleikarinn svo svari þannig að samvinnan er lykilatriði. „Sérstaklega í Nielsenkonsertinum er gríðarlega mikið samtal í gangi,“ segir Vera og bendir að lokum á að spilaform einleikarans og hljómsveitarspilara sé líka ólíkt. Hljómsveitin leiki ný verk í hverri viku og keyrslan sé mikil en einleikari undirbúi sig í miklu lengri tíma og kafi oftast miklu dýpra. „En þetta er auðvitað allt samvinna og hún er lykillinn að góðum flutningi,“ segir Vera að lokum.