Minningarorð um Sigurð Björnsson
Sigurður Björnsson, óperusöngvari og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er látinn 93 ára að aldri. Sigurður var um árabil einhver þekktasti óperusöngvari landsins, starfaði meðal annars við óperuhús í Þýskalandi þar sem hann nam söng. Sigurður kom oftsinnis fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Til dæmis má nefna að hann söng eitt einsöngshlutverkanna þegar 9. sinfónía Ludwigs van Beethoven var flutt í fyrsta sinn í heild hér á landi 10. febrúar 1966.
Árið 1977 var Sigurður ráðinn framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Ísland og starfaði sem slíkur fram til ársins 1989. Á því tímabili voru meðal annars sett lög um starfsemi hljómsveitarinnar og hún fór í mikilvægar tónleikaferðir innanlands og utan, til dæmis til Þýskalands og Austurríkis árið 1981. Sigurður hafði einnig frumkvæði að svonefndum Vínartónleikum hljómsveitarinnar sem enn njóta mikilla vinsælda í upphafi hvers árs. Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar Sigurði samfylgdina og vottar aðstandendum samúð.