Nýr grænn leiðarvísir fyrir norrænar sinfóníuhljómsveitir
Út er kominn nýr grænn leiðarvísir fyrir norrænar sinfóníuhljómsveitir sem var unninn í samvinnu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, DEOO - samtök sinfóníuhljómsveita í Danmörku, BARC Scandinavia og Bæredygtigt Kulturliv NU. Leiðarvísirinn var styrktur af Augustinusfonden, Aage og Johanne Louis-Hansen Fonden og Nordisk Kulturfond. Græni leiðarvísirinn er hugsaður sem verkfæri fyrir sinfóníuhljómsveitir og aðrar menningarstofnanir á vegferð þeirra til meiri sjálfbærni og umhverfismeðvitundar.
Fyrir ári síðan hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands ráðstefnu fyrir framkvæmdastjóra sinfóníuhljómsveita á Norðurlöndum og við það tilefni skrifuðu 36 hljómsveitir og stofnanir undir viljayfirlýsingu um að taka sameiginleg skref í átt að meiri sjálfbærni. Nú ári síðar, lítur norræni græni hljómsveitarvísirinn ljós, og var unninn út frá þeirri vinnu sem hófst á ráðstefnunni í Reykjavík.
Hér má nálgast leiðarvísinn: https://www.barcscandinavia.com/publications
Leiðarvísirinn mun nýtast hljómsveitum á Norðurlöndunum vel segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Ég er afar stolt af þessu vel unna plaggi sem ég veit að mun nýtast hljómsveitum á Norðurlöndunum og víðar við að innleiða umhverfisvænni leiðir og áherslur í starfsemi sinni. Hér kristallast einnig hversu mikilvæg norræn samvinna er og hvernig við getum stutt við hvert annað í mikilvægum málefnum sem þessum,“ segir Lára Sóley í tilefni af útgáfunni.
Katrine Ganer Skaug, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Helsingborg, tekur í sama streng. „Það er auðvelt að afgreiða einföld umhverfisvæn verkefni sem vekja athygli en það er flóknara að knýja fram raunverulega breytingu sem hefur varanleg áhrif á umhverfið okkar,“ segir Katrine og ítrekar mikilvægi nýja leiðarvísisins. „Hvers vegna ekki að byrja hér? Við verðum að hætta að skammast okkar þó svo við teljum okkur ekki vera að gera nóg. Þessi leiðarvísir spyr okkur hvers vegna við erum ekki komin lengra, og það er dýrmætt.“