EN

14. janúar 2020

Gubaidulina: ,,Öll tónlist ber með sér andlegt inntak“

Tónlist Sofiu Gubaidulinu verður áberandi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á vormánuðum 2020 þar sem þrjú lykilverk hennar munu hljóma á tónleikum, tvö þeirra í fyrsta sinn á Íslandi. Á tónleikum Föstudagsraðarinnar 17. janúar hljómar píanókvintett nr. 1, fimmtudaginn 26. mars leikur hljómsveitin fiðlukonsertinn Offertorium og á lokatónleikum starfsársins föstudaginn 5. júní flytur sveitin konsert fyrir fiðlu, selló og bajan sem er eitt hennar nýjasta verk.

Gubaidulina er 88 ára gömul og hefur verið búsett í Hamborg frá árinu 1992. Hún þykir eitt fremsta tónskáld samtímans og henni hafa fallið í skaut ótal verðlaun og viðurkenningar. Meðal annars hlaut hún Léonie Sonning-verðlaunin árið 1999, Polar-verðlaunin árið 2002, Evrópsku menningarverðlaunin árið 2005 og hún hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Yale- og Chicago-háskóla.

Gubaidulina veitir nær aldrei viðtöl en af þessu tilefni féllst hún á að svara nokkrum spurningum frá Íslandi.

Gubaidulina-bref

Gubaidulina svaraði viðtalinu í átta blaðsíðna löngu handskrifuðu bréfi
sem hún sendi Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Hverjar eru þínar fyrstu minningar um tónlist? Og hvenær ákvaðstu að leggja tónsmíðar fyrir þig?

„Fyrstu minningar mínar um tónlist tengjast barnatónlistarskólanum, þegar ég var um fimm til sjö ára gömul. Ég gekk inn í bygginguna í fyrsta sinn og strax á þröskuldinum varð ég uppnumin af því leyndardómsfulla andrúmslofti sem hljómarnir mynduðu. Það bárust hljóð úr mörgum herbergjum þar sem börn voru að læra grunnatriði í tónlist – tónstigar, arpeggíur, hljómar, kaflar úr hinum og þessum tónverkum. Hljóðin bárust að sjálfsögðu í mismunandi tóntegundum. Allt rann þetta saman í mikinn heildarhljóm sem var töfrum líkastur, eins og helgiathöfn. Í rauninni var þetta mitt musteri.

Síðar kom flygill inn á heimili fjölskyldunnar og þá uppgötvaði ég hjá mér áhuga fyrir því að impróvísera á píanó. Mér fannst lögin sem ég átti að æfa í skólanum ekki nýta sér möguleika hljóðfærisins, þau náðu bara yfir tvær áttundir á hljómborðinu! Þannig fór mig að langa til að skrifa niður ímynduðu hljóðin. Auðvitað datt mér ekki í hug að þetta gæti leitt til þess að ég yrði tónskáld. Það var bara þessi ósk um að dvelja í heimi tónanna, mig dreymdi um að læra tæknina við að skrifa niður tónlist. Það var brjálæðislega erfitt. Smám saman fór ég að láta mig dreyma um að komast í læri hjá alvöru tónskáldi. Sá draumur rættist þegar ég var orðin 13–14 ára gömul.“

Gubaidulina-piano

Gubaidulina fór ung að læra á píanó og byrjaði fljótt að leika sér
að því að impróvísera á hljóðfærið

Þú fæddist í borginni Tsjistopol í Tatarlýðveldinu en fjölskyldan fluttist til borgarinnar Kazan þegar þú varst sjö mánaða gömul. Hvernig var tónlistarlífið þar þegar þú varst ung? Voru það mikil viðbrigði fyrir þig að fara þaðan til Moskvu?

„Í Kazan var tónlistarlífið fremur líflegt og einkenndist af metnaði. Kennurum frá Moskvu var oft boðið að koma og kenna við Tónlistarháskólann, og einnig héldu frægir tónlistarmenn tónleika í borginni. Ég útskrifaðist úr Tónlistarháskólanum sem píanóleikari, og kennari minn þar var hinn afbragðsgóði píanóleikari frá Moskvu, Grigori Mikhailovitsj Kogan. Ég er afar þakklát Tónlistarháskólanum í Kazan fyrir menntunina sem ég hlaut þar, hún var mjög veigamikil. En menntunin var eingöngu klassísk, mig skorti alla þekkingu á samtímatónlist. Þess vegna var það afar mikilvægt fyrir mig að flytja til Moskvu þegar ég var rúmlega tvítug. Þar opnaðist fyrir mér heill heimur af þekkingu og nýjum leiðum. Heimssýn mín stækkaði til muna og það sem mestu skipti, ég fékk að kynnast persónulega tónlistarmönnum í hæsta gæðaflokki.“

Tónlist þín býr yfir sterkri andlegri vídd og mörg verka þinna eru innblásin af trú. Hvernig skýrir þú þessa vídd í verkum þínum? Og hvernig var það að vera trúað tónskáld í Sovétríkjunum?

„Ég er þeirrar skoðunar að öll tónlist beri með sér andlegt inntak, og ég held að án trúarupplifunar væri mér ekki mögulegt að fást við þessa listgrein. Hinn skapaði heimur hefur hljómað frá upphafi vega og hinn upphaflegi hljómur er birtingarmynd þess lögmáls sem er undirstaða alheimsins. Einangraður tónn ber í sér óteljandi yfirtóna, hann sækir þannig í óendanleikann en laðast samtímis að grunntóninum sem er fullkomnun, endir. Ég minnist barnslegrar undrunar minnar yfir því að geta ekki komist að endimörkum spunans án þess að kalla fram einhvers konar stöðugan, ómblíðan hljóm. Þá vissi ég ekki að það héti grunntónn. Þessir tveir andstæðu pólar, óendanleikinn og hið endanlega, eru kjarni tónlistar og lykill að því að upplifa galdur tilverunnar. Það er hreinlega trúarleg upplifun. En sem trúað tónskáld í Sovétríkjunum var nauðsynlegt að fara leynt með það.“

Gubaidulina samdi píanókovintettinn þegar hún var 26 ára gömul árið 1957.
Tónverkið er meðal elstu verka hennar sem hún leyfir að sé spilað og tekið upp. 

Hvert er að þínu mati hlutverk tónlistarinnar í hinum hraða og oft órólega heimi 21. aldarinnar?

„Tónlist leyfir okkur að nálgast hið æðsta í tilveru okkar. Hlutverk hennar hefur kannski aldrei verið stærra en nú, af því að margvíslegar ógnir steðja að mannkyninu um þessar mundir. Við höfum tapað mælikvarða hins æðra; tilveran er einföld og flatneskuleg með efnislegri tækifærisstefnu og lífskrafturinn hefur dvínað vegna langvarandi velmegunar. Á sama tíma upplifa margir mikla eymd sem hefur eyðileggingu í för með sér. Tónlist getur einmitt verið mótvægi við þessa þróun. Hún er rótföst, einhvers konar endurspeglun tilveru á æðra plani. Allt getur þetta hjálpað okkur að varðveita manneskjuna sem margbreytilega veru, að viðhalda uppsprettu þess krafts sem býr innra með okkur öllum.

En það er erfitt að muna þessa eiginleika tónlistarinnar þegar áreitið miðast við það að manneskjan sé einföld vera sem vill aðeins efnislega flatneskju. Það þykir óþarft og óviðeigandi að reyna að nálgast æðri upplifun eða njóta hennar. Styttra svar við þessari spurningu gæti verið á þessa leið: Hlutverk tónlistarinnar er gríðarstórt en okkur mun líklega aldrei takast að uppfylla það til fulls.“

Ertu í nánum samskiptum við flytjendur á meðan þú semur tónlist þína?

„Það er afar misjafnt. Stundum eru slík tengsl mjög æskileg og gefandi, til dæmis þegar ég var að semja Sjö orð (Sieben Worte) fyrir selló, bajan (takkaharmóníku) og strengjasveit. Í verkinu vildi ég túlka myndlíkingu krossins, þ.e. láta hljóðin í sólóhljóðfærunum mætast í kross. Þetta var auðvelt að framkvæma á selló, glissandó á einum streng fer yfir á næsta streng. En þetta var öldungis ógerlegt á harmóníkuna. Til þess að framkvæma þetta þurfti hugmyndaflug flytjandans, Friedrich Lips. Hann tók sig til og bjó til glissandó-hljóð sem engum hafði dottið í hug að framkvæma áður.

Annað dæmi: Þegar ég var að semja Fachwerk, sem tileinkað er harmóníkuleikaranum Geir Draugsvoll, þá kom mjög mikilvægt frumkvæði frá sólistanum. Hann vildi fá fleiri einleiksþætti þar sem hann myndi leika án hljómsveitar. Þetta varð til þess að ég þurfti að endurskoða allt form verksins, en ég var afar sátt við útkomuna og hans þátt í að tónsmíðin fékk sína endanlegu mynd.“

 

Upptaka af Fachwerk með norska harmóníkuleikaranum Geir Draugsvoll

Sinfóníuhljómsveit Íslands fær til liðs við sig flytjendur sem eru ákafir talsmenn þínir og flytja tónlist þína víða um heim: Vadim Gluzman er heimskunnur fyrir túlkun sína á Offertorium, og Baiba Skride, Harriet Krijgh og Elsbeth Moser frumfluttu Þríleikskonsertinn árið 2017. Geturðu sagt okkur eitthvað um þín samskipti við þessa flytjendur og nálgun þeirra á tónlist þína?

„Fyrir mér eru flytjendur einstaklingar sem elska endalaust. Ég elska augnaráð þeirra og hreyfingar og hvernig þau framkalla hljóðin sem ég hef áður heyrt
í höfðinu. Ég kann vel að meta ást þeirra á hljóðfæri sínu og á tónlistinni. Einleikararnir sem munu flytja tónlistina mína á Íslandi – Gluzman, Skride, Krijgh og Moser – er allt fólk sem ég hef unnið náið með. Þau urðu fyrir mér mitt annað sjálf. Þau eru ekki aðeins flytjendur heldur alvöru listamenn sem fullkomnuðu sköpunarferlið. Ég er þeim endalaust þakklát fyrir fórnfýsina og andagiftina.“

Gubaidulina-og-einleikarar

Gubaidulina ásamt Baibu Skride, Harriet Krijgh og Elsbeth Moser
sem frumfluttu þríleikskonsert Gubaidulinu árið 2017

Er eitthvað sem þú vilt segja við íslenska tónleikagesti að lokum?

„Ég vil fyrirfram þakka gestum fyrir áhuga sinn á að hlýða á verk mín og koma á tónleikana. Ég vona að þeir sýni verkum mínum eftirtekt og umburðarlyndi. Þeir sem hlusta á klassíska tónlist þurfa að búa yfir mikilli andlegri einbeitingu. Það er ekki auðvelt að skilja til fullnustu dýpt hljóðheimsins. Jafnvel í verkum sem ekki eru alveg nógu góð geta leynst agnir af hinum dýrmæta anda tónlistarinnar. Ég mundi vilja safna saman þeim ögnum.“


Viðtal: Árni Heimir Ingólfsson
Þýðing úr rússnesku: Nathalía Druzin Halldórsdóttir