EN

25. október 2022

Það er mikilvægt að segja sögu

Laufey tekin tali

Þó að Laufey sé ung að árum hefur hún heillað heimsbyggðina með lagasmíðum sem sameina bæði strauma úr jazzi og samtímadægurtónlist. Laufey hefur vakið mikla athygli, nú síðast þegar hún kom fram í sjónvarpsþættinum Jimmy Kimmel Live, og virt tónlistartímarit á borð við Rolling Stone hafa hælt henni á hvert reipi. Móðurafi Laufeyjar naut gríðarlegrar virðingar sem fiðlukennari í Kína á sinni tíð og móðir hennar er fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þá liggur beint við að spyrja, sótti Laufey tónlistaráhugann í móðurætt? „Það er engin spurning. Það var alltaf tónlist í fjölskyldunni minni og ég byrjaði á að sitja á sviðinu hjá Sinfó í maganum á mömmu þannig að þetta byrjaði mjög snemma. Þannig ólst ég upp við tónlist og byrjaði að spila á píanó þegar ég var fjögurra ára og selló þegar ég var átta ára. Svo var ég í Tónlistarskólanum í Reykjavík í mörg ár þar sem ég lærði lengi á píanó, selló og var svo líka í jazz-söng.“


 Laufey flytur lag sitt Valentine 

Það er stundum sagt að Laufey blandi saman ólíkum tónlistargreinum, það er að segja jazzi og svo samtímadægurtónlist og það birtist meðal annars í tónsmíðum hennar – en er eitthvað til í því? „Algjörlega! Eftir Tónlistarskólann í Reykjavík fór ég út í nám við Berklee og fékk fullan styrk til þess að taka bachelor-gráðu á selló. Um leið stúderaði ég jazz mikið og þar lærði ég að blanda öllu saman. Ég er með klassíska menntun og jazz-menntun en ég elska líka nýja tónlist og mig langar að segja söguna mína, sem tilheyrir nútímanum.“

Laufey hefur til að mynda starfað með Fílharmóníusveit Lundúna og hittir fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands í október. Hvernig finnst henni að starfa með sinfóníuhljómsveitum við tónlistarsköpun? „Það hefur alltaf verið draumurinn,“ segir Laufey, og bætir við að þegar hún hóf samstarf við umboðsmann sinn hafi hann beðið hana að útbúa einskonar óskalista fyrir frama sinn í tónlistarheiminum. „Ég mátti nefna hvað sem er, til dæmis Grammy-verðlaun eða Óskarsverðlaun, en ég sagði að númer eitt væri að spila með sinfóníuhljómsveit,“ segir Laufey. „Það er heimilið sem ég ólst upp á og tónlistin sem ég elska mest“ segir hún og bætir við að margar af helstu jazz-fyrirmyndum hennar hafi líka komið fram með heilli hljómsveit, svo sem Nat King Cole og Ella Fitzgerald. „Og allra skemmtilegast er auðvitað að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands því ég ólst upp innan hennar, var lengi í Ungsveitinni og þetta er eins og fjölskyldan mín. Þetta er eins og að koma heim.“

Tónleikaferð um Bandaríkin og útgáfa í bígerð

En hvernig hugsaði Laufey efnisskrána fyrir tónleikana með Sinfóníunni, þ.e.a.s. á hverju geta gestir átt von? „Gestir Sinfó geta átt von á að heyra tónlistina mína, tónlistina sem ég hef samið, sögurnar mínar af ungri stelpu að fara út í heiminn í fyrsta skipti og fara í gegnum allt sem því fylgir, í bland við uppáhalds jazz-tónlistina mína.“

Hvað er svo framundanhjá Laufeyju? „Ég er að fara í fyrstu tónleikaferðina mína um Bandaríkin og Evrópu og það er gaman að segja frá því að það seldist upp strax, sem er alveg æðislegt og ég trúi því varla. Svo er ég að vinna í plötu sem kemur fljótlega – fyrstu plötunni minni. Þannig að það er margt spennandi framundan og ég hlakka til.“