EN

11. september 2023

Þakkar fyrir hverja nótu

Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari segir frá ævintýralegri endurkomu í starfi eftir að hafa lent í martröð hvers fiðluleikara.

Sigrún Eðvaldsdóttir hefur verið fyrsti konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 1998 og fagnar því 25 ára starfsafmæli í ár. Aðdragandi þeirra tímamóta hefur þó ekki verið tíðindalaus og má raunar segja að Sigrún fagni um leið ákveðinni endurfæðingu í starfi sínu: Að hafa komist aftur til fullrar heilsu eftir að hafa lent í slysi sem hefði getað bundið enda á ferilinn.

Ég var stödd í Malmö í maí 2022 til að spila í hrikalega skemmtilegri óperuuppfærslu,“ segir Sigrún þegar hún er tekin tali milli æfinga í Hörpu. „Þetta var um miðjan dag, það var sól og blíða og ég var á gangi á strigaskóm með báðar hendur fullar og fiðluna á bakinu. Það var vinnusvæði við gangstéttina og ég rak fótinn í eitthvað, missti jafnvægið og steyptist fram fyrir mig án þess að geta stöðvað fallið. Ég man eftir að hafa hugsað: „Ég trúi ekki að þetta sé að gerast,“ en það gerðist nú samt. Ég held ég hafi rekið höfuðið í járnhlið því ég datt út í nokkrar sekúndur. Ég heyrði dynkinn – en þegar ég opnaði augun lá ég á gangstéttinni. Þetta var hræðilegt.“

FIÐLAN FÓR EKKI ÚR STILLINGU
Sigrún segir að hún hafi tekið fallið af hljóðfærinu af hreinni eðlisávísun. „Ég tók bara fallið á mig – fiðlan fór ekki einu sinni úr stillingu! En svo þegar ég ætlaði að athuga með vinstri handlegginn á mér tók ég eftir að hann vísaði í allt aðra átt en hann átti að gera og var algerlega sambandslaus við mig.“ Sigrún reyndist vera með alvarlegt brot í upphandlegg og hlaut umönnun á spítalanum í Malmö. „Ég skildi fiðluna auðvitað ekki við mig á spítalanum, en hjúkrunarkonurnar voru svo dásamlega góðar við mig og sýndu þessu mikinn skilning: „Svona er þetta bara, þetta er barnið þitt!“ sögðu þær og hlógu,“ segir Sigrún. Hún dvaldi í þrjár vikur í Malmö og sneri svo heim til þess að láta beinin gróa um sumarið. En beinin greru ekki og brotið var laust fram á haust, svo öll endurhæfing var bæði sár og árangurslaus. Þegar sumarið var liðið og batinn þokaðist ekkert áfram var ekki laust við að Sigrún yrði uggandi um framhaldið. „En ég var í fullu starfi við að vera jákvæð. Ég ákvað bara að ég myndi taka því versta ef til þess kæmi. Ég vissi að puttarnir og taugarnar voru heilar og beinbrot grær á endanum.“

ÆFÐI SIG EINA MÍNÚTU Á DAG
Meðan Sigrún var ekki enn farin að geta spilað aftur mætti hún á alla tónleika Sinfóníunnar og hlustaði í áheyrendasalnum. „Þetta var æðislegt. Ég naut þess svo að hlusta og spila með í huganum, það var svo gott fyrir mitt innra tónlistarlíf.“ Það var svo loksins í október að Sigrún komst í aðgerð á Landspítala og 15 nöglum var komið fyrir í upphandleggnum. „Þá fóru hlutirnir loksins á flug. Í janúar ákvað ég að byrja á bara einni mínútu á dag. Ég ætlaði að gera eins og fótboltamennirnir – taka fimm mínútur inni á vellinum í einu eftir meiðsli, og samdi við samstarfsfólk mitt hjá Sinfóníunni um að byrja að spila með hljómsveitinni örfáar mínútur í senn á aftasta púlti.“ Sigrúnu fannst ekki síður lærdómsríkt að færa sig úr konsertmeistarasætinu og sitja aftast á sviðinu. „Ég held að konsertmeistarar ættu almennt að prófa þetta – að færa sig til og finna hvaða áskoranir fylgja því að sitja aftar á sviðinu.“

BÆNAHRINGIR OG UNDRAVERÐUR BATI

Smám saman fjölgaði mínútunum sem Sigrún treysti sér til að spila. „Þegar Anne-Sophie Mutter var hér að spila í lok janúar var ég komin upp í 20 mínútur á dag – og hún var alveg frábærlega skemmtileg og hvetjandi við mig.“ Sigrún segir einmitt að hvatning, fallegar hugsanir og jafnvel bænir fólks, jafnt vina hennar sem ókunnugra, hafi hjálpað sér mikið. „Ég fann fyrir svo ótrúlegum meðbyr og stuðningi úr ýmsum áttum,“ segir Sigrún og brosir. „Það var fólk sem bað fyrir handleggnum á mér, heill bænahringur. Svona finnst mér algerlega ómetanlegt. Ég trúi svo á þetta og ég fann hvað þetta hjálpaði mér. Enda var það sem gerðist svo hálfgert kraftaverk.“


Ég finn að ég mun aldrei taka neinu sem sjálfsögðum hlut í lífinuTEKUR ENGU SEM SJÁLFSÖGÐUM HLUT
„Ég byrjaði að spila með hljómsveitinni í Hljómsveitarstjóraakademíunni í febrúar og ætlaði bara að spila með í einu verki, Adagio eftir Barber,“ segir Sigrún. „Svo er ég sest við upphaf æfingar og er ein á aftasta púlti. Þá segir okkar frábæra sviðskona, hún Björk: „Sigrún, viltu samt ekki hafa nóturnar að hinum verkunum hjá þér líka?“ Hún kom með þær allar og þegar Barber var búinn og komið að næsta verki, Forleiknum að Don Giovanni eftir Mozart, hugsaði ég bara: Ég geri þetta bara. Ég hrökk í gírinn og gamla Sigrún var allt í einu mætt. Þetta kom mér gersamlega á óvart. Ég bara gat þetta. Frá þeirri stundu hefur þetta bara verið beint strik upp á við. Þetta kemur sjálfri mér mjög á óvart – og mér finnst eins og ég sé ekki við stjórnvölinn.“ En hvernig horfir nýtt starfsár við Sigrúnu? „Það er svo margt sem ég hlakka til að spila og hlusta á. Ég hlakka mikið til að heyra Leilu Josefowicz spila Bartók og sömuleiðis að fá hingað flautuleikarann Emmanuel Pahud, en ég spilaði með honum á kammermúsíkhátíð í Frakklandi fyrir 30 árum. Svo hlakka ég mjög mikið til þess að heyra í Vadim Gluzman, sem er frábær fiðluleikari. Ég hlakka til að spila Glass sinfóníurnar – en ég held að allra mest hlakki ég til að spila aftur með Barböru Hannigan.“ Það er auðheyrt að Sigrún er bjartsýn með framhaldið. „Þetta er svo góð tilfinning. Mér líður eins og ég hafi fengið annað tækifæri í lífinu,“ segir hún. „Nú kemur lokakaflinn minn, sem verður einhver ár – og ég ætla að ljúka honum með stæl. Ég finn að ég mun aldrei taka neinu sem sjálfsögðum hlut í lífinu og ég er svo þakklát fyrir hverja einustu nótu sem ég fæ að spila.“