EN

9. janúar 2023

Sir Stephen Hough tekinn tali

Sir Stephen Hough segir frá verkunum sem hann spilar með Sinfóníunni í Eldborg og á tónleikaferð um Bretland

„Ég hlakka mikið til að koma til ykkar – ég spila bæði Beethoven í janúar og Rakhmanínov í febrúar, svo spila ég einleikstónleika, les upp úr bókinni minni og spjalla – það verða allir orðnir dauðleiðir á mér í lok starfsársins!“ segir Stephen Hough af sinni alkunnu hógværð og hlær þegar veturinn framundan er færður í tal, en Hough er Listamaður í samstarfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á starfsárinu og kemur auk tónleika í Hörpu fram með hljómsveitinni á tónleikaferð um Bretland í apríl.

Stephen Hough hefur verið í fremstu röð píanista heimsins um árabil. Hann var fyrsti klassíski listamaðurinn til að hljóta hin eftirsóttu MacArthur-verðlaun 2001, og vorið 2022 sæmdi Elísabet Bretadrottning hann riddaratign. Hann kemur reglulega fram með bestu hljómsveitum veraldar og í helstu tónleikasölum heims, auk þess að gegna prófessorsstöðu við Royal Academy of Music í Lundúnum og Juilliardskólann í New York. Þessi virti og fjölhæfi listamaður er íslenskum áheyrendum þegar að góðu kunnur, enda hefur hann þrisvar áður komið til Íslands til að spila með SÍ. „Mér líður alltaf frábærlega í Reykjavík og mér finnst Ísland magnaður staður,“ segir Hough – „ég þyrfti bara helst að gefa mér tækifæri til að fara víðar en milli flugvallarins og tónleikasalarins,“ bætir hann við kíminn og kemur þannig upp um hvernig lífi einleikarans er gjarnan háttað; þrátt fyrir ferðalög á ýmsa framandi staði gefst ekki mikill tími til að skoða sig um. Þó má segja að ferðatöskulífsstíllinn eigi vel við Hough, sem nýtir tímann vel í sín fjölbreyttu hugðarefni. Auk píanóleiksins er hann tónskáld, rithöfundur og listmálari. „Það fer ótrúlegur tími í að komast frá einum stað til annars – og svo er maður kannski bara á sviðinu að spila í hálftíma. Ég reyni að nýta tímann á flugvöllum, í flugvélum og inni á hótelherbergjum til að hripa niður hugmyndir, bæði í texta og tónum. Svo bíða þær kannski í ár eftir því að ég hafi tíma til að vinna úr þeim,“ segir Hough, en gaman er að fylgjast með ævintýrum hans á samfélagsmiðlinum Twitter, þar sem í ljós kemur að áhugasvið hans nær líka til gómsætra eftirrétta.

 

Sir Stephen Hough er listamaður í samstarfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á starfsárinu

Fæðing einleikarans og fullkominn píanókonsert

Hough hlakkar líka til að fá Sinfóníuhljómsveit Íslands í heimsókn á sínar heimaslóðir. „Já, ég er mjög spenntur – tónleikaferðalög fela í sér allt aðra sálfræði en að spila heima í kunnuglegum tónleikasal. Það verður gaman að vera gestur hljómsveitarinnar – meðal annars í minni gömlu heimaborg Manchester, þar sem ég bjó og lærði sem ungur maður.” Bæði verkin sem fylgja Hough og SÍ á ferðalaginu hljóma á tónleikum SÍ í Eldborg í janúar og febrúar. Þau eiga hvort um sig sérstakan stað í hjarta píanóleikarans. 

„Á vissan hátt er þetta fyrsti eiginlegi nítjándu aldar píanó - konsertinn,“ segir Hough um þriðja píanókonsert Beethovens, „því fyrstu tveir tilheyra meira veröld Mozarts, þar sem samspil einleikara og hljómsveitar minnir á kammertónlist. Þarna sjáum við fyrir alvöru möguleikana sem píanókonsertinn sem form bjó yfir. Þarna fæddist hugmyndin um einleikara í kastljósinu á miðju sviði sem bæði leikur með – en líka á móti – heilli sinfóníuhljómsveit. Eins og svo mörg verk Beethovens í c-moll er þarna að finna mikið drama og ákveðið ferðalag úr myrkrinu í ljósið. Mér finnst þetta stórbrotið verk. Tökum til dæmis byrjunina – hún er bara tónstigi. Og svo kemur annar tónstigi. Og svo annar! Beethoven nýtir sér dramatískar bendingar á borð við þessar en þær eru aldrei innantómar. Þær eru alltaf hlaðnar ástríðu og tilgangi. Þriðji konsertinn er frábært dæmi um þetta, maður fær Beethoven beint í æð á fyrstu tíu sekúndunum eftir að píanóleikarinn byrjar að spila.“

 

Sir Stephen Hough leikur Rakhmanínov

Annar píanókonsert Rakhmanínovs er líka í sérstöku eftirlæti hjá Hough. „Á vissan hátt er annar píanókonsert Rakhmanínovs fyrsta þroskaða tónsmíðin hans – og hann spilaði verkið sjálfur út ævina. Það er eitthvað fullkomið við þetta verk, formið gengur algerlega upp. Ég elska reyndar alla konsertana hans – en þessi er þannig að það væri ekki hægt að taka í burtu einn takt. Það er fullt af stórkostlegum laglínum sem alltaf ná að hreyfa við mér. Það er einhver heiðarleiki í tilfinningunum – verkið verður aldrei tilfinningaseminni að bráð en fer eins nálægt hjartanu og hægt er að komast.“

Gólfið fær að nötra í Föstudagsröðinni

Hough kemur einnig fram á klukkustundarlöngum tónleikum í Föstudagsröðinni í Norðurljósum kvöldið eftir Beethovenkonsertinn. Þar gefst áheyrendum tækifæri á að kynnast hinni hliðinni á þessum litríka listamanni, en auk þess að spila glæsiverk eftir Debussy og Liszt les Hough upp úr einni af bókum sínum og spjallar um listina og lífið. Þá leikur Hough partítu eftir sjálfan sig. „Hún er í fimm þáttum. Ég hafði áður skrifað fjórar píanósónötur sem voru mjög alvarlegar í anda – en þarna langaði mig að gera eitthvað annað og glaðlegra. Ytri þættirnir tveir eru innblásnir af stórum frönskum orgeltokkötum, kraftmiklum verkum þar sem gólfið í kirkjunni bókstaflega nötrar. Miðjuþættirnir þrír sækja hins vegar bæði í smiðju Bartóks og katalónska tónskáldsins Federico Mompou, en píanistinn sem pantaði af mér verkið býr í Barcelona,“ segir Hough, sem vill meina að tónsmíðaferillinn hafi tekist á flug fyrir hálfgerða slysni „Ég samdi eitt verk fyrir afmælisfögnuð gamla tónsmíðakennarans míns – en svo heyrði annar kunningi það á tónleikum og vildi líka fá verk. Svona rúllaði þetta bara af stað. Nú er ég að semja píanókonsert, nokkuð sem ég hefði aldrei trúað að ætti fyrir mér að liggja. En tónsmíðarnar gefa mér mikið,“ segir þessi hæverski meistari slaghörpunnar að lokum.