EN

26. janúar 2022

Dagskrá næstu vikna hjá Sinfóníunni

Hádegistónleikar 3. og 10. febrúar – áður útgefinni dagskrá í janúar og febrúar breytt

Sinfóníuhljómsveit Íslands þurfti að fresta eða aflýsa fyrirhuguðum tónleikum sínum í janúar og febrúar vegna stöðu heimsfaraldursins. Það gleður okkur þó að geta sagt frá því að hljómsveitin mun koma saman á ný og halda tvenna hádegistónleika á næstu vikum, Wagner og Mozart fimmtudaginn 3. febrúar og Mozart og Beethoven fimmtudaginn 10. febrúar.

Aðgangur að tónleikunum, sem eru um fimmtíu mínútna langir án hlés, er ókeypis en nauðsynlegt verður að skrá sig fyrir miðum á tónleikana. Þar sem beðið er eftir nýrri útfærslu á samkomutakmörkunum hefst skráning í byrjun næstu viku, og verða sendar út upplýsingar þess efnis í fréttabréfi.

Eins og fram hefur komið reyndist óhjákvæmilegt að fresta eða aflýsa tónleikum og viðburðum hljómsveitarinnar sem upphaflega voru á dagskrá í janúar og febrúar vegna stöðu faraldursins. Upplýsingar um þá tónleika sem var frestað í janúar; Vínartónleikum, Ungum einleikum og Shostakovitsj og Barber, eru væntanlegar innan tíðar. 

Eftirfarandi viðburðum hefur verið frestað eða aflýst:

  • Vínartónleikar 6., 7. og 8. janúar - frestað
  • Ungir einleikarar 13. janúar - frestað
  • Shostakovitsj og Barber 20. janúar - frestað
  • Ferð án fyrirheits 27. janúar - aflýst
  • Hádegistónleikar 28. janúar - aflýst
  • Ævintýrið um Töfraflautuna 12. febrúar - aflýst
  • Valkyrjan 24. og 26. febrúar - aflýst

Miðar á þá tónleika sem frestað er gilda í öllum tilfellum áfram á nýjar dagsetningar og miðahafar sem óska eftir að halda miðunum þurfa ekkert að aðhafast frekar. Sé óskað eftir að fá miðana endurgreidda má hafa samband við miðasölu Hörpu í síma 528 5050 eða með tölvupósti á midasala@harpa.is.

Miðar á þá tónleika og viðburði sem búið er að aflýsa verða endurgreiddir að fullu og gerist það sjálfkrafa hafi miðarnir verið greiddir með greiðslukorti í vefsölu. Í öðrum tilfellum eða ef spurningar vakna, vinsamlegast hafið samband við miðasölu Hörpu í síma 528 5050 eða með tölvupósti á midasala@harpa.is.