EN

15. nóvember 2019

Nýr diskur með íslenskum hljómsveitarverkum kominn út

Diskurinn Concurrence með íslenskum hljómsveitarverkum í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands er kominn út hjá bandarísku útgáfunni Sono Luminus. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason og einleikarar eru Víkingur Heiðar Ólafsson og Sæunn Þorsteinsdóttir.

Hægt er að hlusta á diskinn Spotify-rás hljómsveitarinnar. 

Á disknum má heyra ný íslensk hljómsveitarverk eftir nokkur af okkar fremstu tónskáldum. Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, sem var pantað af New York Philharmonic sem frumflutti það í apríl 2018 undir stjórn Esa-Pekka Salonen.  Píanókonsert nr. 2 eftir Hauk Tómasson var saminn að beiðni Elbphilharmonie-hljómsveitar norðurþýska útvarpsins og Fílharmóníusveitar Los Angeles og var frumfluttur í Elbphilharmonie af Víkingi Heiðari Ólafssyni undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Á disknum má finna Oceans eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur en hún átti einnig verkið Aequora á fyrsta disk útgáfunnar. Lokaverkið á disknum er Quake eftir Pál Ragnar Pálsson sem var einnig samið að beiðni Elbphilharmonie-hljómsveitarinnar og Fílharmóníusveitar Los Angeles og tileinkað sellóleikaranum Sæunni Þorsteinsdóttur sem frumflutti konsertinn ásamt fyrrnefndu hljómsveitinni í Hamborg. Verkið var seinna flutt í Los Angeles með Fílharmóníusveitinni þar undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Verkin hafa öll verið flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg og voru tekin upp í Hörpu undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Upptökustjórn var í höndum Daniel Shores og Dan Merceruio.

Concurrence er annar diskurinn af þremur sem hljómsveitin gefur út hjá útgáfufyrirtækinu Sono Luminus. Fyrsti diskurinn í röðinni, Recurrence, hlaut lofsamlega dóma gagnrýnenda og var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í sígildri- og samtímatónlist árið 2018. Auk þess sem hann var valinn einn af fimm bestu diskum ársins að mati Christian Blauvelt, menningarritstjóra BBC Culture. Hann segir í umsögn sinni á vefsíðu BBC að Ísland sé í miðri „endurreisn á sviði klassískrar tónlistar“ og að diskurinn sýni hvílíku hæfileikafólka eyþjóðin geti státað af. 

Ég er bæði stoltur og spenntur að kynna annan diskinn í þessari röð sem hefur að geyma ný íslensk hljómsveitarverka,

segir Daníel Bjarnason aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hér er hægt að panta diskinn á netinu.

Í upptökunni fyrir Concurrence var hljómsveitinni raðað í hring og Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri staðsettur í miðjunni. Hljóðið er tekið upp í einskonar þrívídd þannig að hlustandanum líður eins og hann sé staddur í hljómsveitinni miðri.