EN

12. mars 2020

Concurrence valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum

Nýjasta plata Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Concurrence, var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í Hörpu. Concurrence er annar diskurinn af þremur sem bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus gefur út með Sinfóníuhljómsveitinni. Fyrsti diskurinn, Recurrence, kom út í fyrra og var einnig valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2019. Þriðji diskurinn í röðinni kemur út árið 2020 og inniheldur verk eftir Þuríði Jónsdóttur, Magnús Blöndal Jóhannsson, Veronique Vöku og Daníel Bjarnason.

Á Concurrence má finna fjögur hljómsveitarverk eftir tónskáldin Önnu Þorvaldsdóttur, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur Markan, Hauk Tómasson og Pál Ragnar Pálsson. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi hljómsveitarinnar, og einleikarar eru Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari. Upptökustjórn var í höndum Daniel Shores og Dan Merceruio en bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus stóð að útgáfunni.

Concurrence hefur fengið frábæra dóma og var valin á árslista margra helstu blaða og tímarita heims. The New York Times valdi diskinn einn af 25 bestu klassísku útgáfum ársins, NPR og Second Inversion völdu hana sem eina af tíu bestu útgáfum ársins ásamt því að MusicWeb International gaf plötunni frábæra dóma: „Ekkert hrós er nógu mikið fyrir allt það framúrskarandi tónlistarfólki sem kom að Concurrence.“

Á disknum má meðal annars heyra Metacosmos eftir 
Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Öll verkin sem má heyra á Concurrence hafa verið flutt í Eldborg á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og voru tekin upp í Hörpu á árunum 2018 og 2019.

Diskurinn er fáanlegur í plötuverslununm, Epal í Hörpu og völdum verslunum Eymundsson.

Recurrence kom út 2018 hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Sono Luminus

Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, var pantað af New York Philharmonic sem frumflutti það í apríl 2018 undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Quake eftir Pál Ragnar Pálsson var samið að beiðni Elbphilharmonie-hljómsveitarinnar og Fílharmóníusveitar Los Angeles og tileinkað sellóleikaranum Sæunni Þorsteinsdóttur sem frumflutti konsertinn ásamt fyrrnefndu hljómsveitinni í Hamborg.

Píanókonsert nr. 2 eftir Hauk Tómasson var saminn að beiðni Elbphilharmonie-hljómsveitar norðurþýska útvarpsins og Fílharmóníusveitar Los Angeles og var frumfluttur í Elbphilharmonie af Víkingi Heiðari Ólafssyni undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Á diskinum má einnig finna verkið Oceans eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur en hún átti einnig verkið Aequora á fyrsta diski útgáfunnar.