EN

30. desember 2019

Viðburðaríkt ár að baki og afmælisár framundan

Árið 2019 var einstaklega viðburðaríkt hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og er margs að minnast þegar litið er yfir tónlistarárið. Hljómsveitin hélt samtals 134 tónleika og viðburði á árinu og lék fyrir samtals 88 þúsund tónleikagesti, þar af 18 þúsund nemendur á skólatónleikum hljómsveitarinnar. Sinfóníuhljómsveit Íslands mætir nýju ári með mikilli tilhlökkun en hljómsveitin fagnar 70 ára afmæli sínu á árinu. Hátíðarhöldin hefjast á afmælistónleikum 5. mars 2020 undir stjórn Evu Ollikainen en hún er verðandi aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi hljómsveitarinnar. Lára Sóley Jóhannsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar haustið 2019 en eitt af hennar fyrstu verkum sem framkvæmdastjóri var að undirrita samning við Evu sem tekur formlega við stöðu aðalhljómsveitarstjóra haustið 2020.

Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníunnar og
Eva Ollikainen verðandi aðalhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar.

 

Þegar litið er yfir árið 2019 er margt sem stendur upp úr og má þar sérstaklega nefna tónleikaferð hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis ásamt hljómsveitarstjóranum Daníel Bjarnasyni, píanistanum Víkingi Heiðari Ólafssyni og hornleikaranum Radovan Vlatković. Hljómsveitin hitaði upp fyrir tónleikaferðina með tvennum tónleikum í Eldborg og var uppselt á báða tónleikana.

Daníel Bjarnason tók við stöðu aðalgestastjórnanda hljómsveitarinnar á árinu
en hann var einnig staðarlistamaður sveitarinnar árin 2015-18. 

Í tónleikaferðinni lék hljómsveitin fyrir tæplega 10.000 tónleikagesti á fimm tónleikum í München, Salzburg og Berlín. Hljómsveitinni var einstaklega vel tekið og fékk hvarvetna frábærar móttökur tónleikagesta. Tvö íslensk tónverk voru í öndvegi í ferðinni, píanókonsertinn Processions eftir Daníel og Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskáld hljómsveitarinnar.

„Þessir gestatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru tilkomumikill línudans milli elds og íss í tónlistinni, og hápunkturinn var tvímælalaust píanókonsert Daníels Bjarnasonar,“ - Bachtracks

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt einnig fjölda eftirminnilegra tónleika í Eldborg og má þar nefna flutningin á Vorblóti Stravinskíjs í febrúar undir stjórn Daníels Bjarnasonar.„Hrynjandin var hárnákvæm og hvöss, krafturinn ógurlegur,“ sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins um flutning á Vorblótinu en á tónleikunum hljómaði einnig verk Daníels Bow to string í flutningi Sæunnar Þorsteinsdóttur sellóleikara sem var tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs á árinu.

„Leikur Sæunnar einkenndist af tilfinningadýpt og skáldskap. Tæknilegar hliðar voru
eins og best verður á kosið, tónarnir hreinir og fagurlega mótaðir.“ - Fréttablaðið.

Klassíkin okkar var endurtekin í fjórða sinn á hátíðlegum tónleikum í ágúst 2019 og að þessu sinni voru það áheyrendur sem sögðu sína tónleikasögu. Úrval okkar fremsta tónlistarfólks kom fram með hljómsveitinni á tónleikunum sem mæltust einstaklega vel fyrir hjá áheyrendum.

Magnaður flutningur Sigrúnar Eðvaldsdóttur konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands
á meginstefinu úr Schindler's List á tónleikunum Klassíkin okkar fékk hárin til að rísa.

Osmo Vänskä heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands stjórnaði hljómsveitinni tvisvar á árinu við frábærar viðtökur. Á fyrri tónleikunum í apríl stjórnaði hann flutningi á tíundu sinfóníu Mahlers sem er stórbrotið verk sem á sér forvitnilega og sérkennilega sögu en á tónleikunum lék Isabelle Faust einnig fiðlukonsert Brahms með hljómsveitinni. Á seinni tónleikunum í maí frumflutti hljómsveitin píanókonsert James MacMillan með franska píanósnillingnum Jean-Yves Thibaudet. „Glæsilegur píanókonsert og stórbrotin sinfónía gerðu tónleikana eftirminnilega,“ sagði Jónas Sen gagnrýnandi Fréttablaðsins meðal annars um tónleikana sem hann gaf fjórar og hálfa stjörnu. Osmo kemur næst til landsins 19. mars 2020 og stjórnar blásarasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands í verkum eftir Mozart, Stravinskíj og Kurt Weill.

Mahler lifði í ótta við bölvun níundu sinfóníunnar og gerði allt hvað hann gat til að klára tíundu sinfóníu sína, en hann gat ekki flúið örlögin og lést áður en hann hafði lokið við verkið.

Þann 16. maí þreytti Bjarni Frímann Bjarnason frumraun sína sem hljómsveitarstjóri á áskriftatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hann tók við stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra haustið 2018. „Hljómsveit og einleikarar fóru á kostum,“ sagði Jónas Sen gagnrýnandi Fréttablaðsins um tónleikana sem hann gaf fjórar og hálfa stjörnu. Einleikararnir sem brilleruðu svona í tvíkonserti Brahms voru þeir Sigurgeir Agnarsson sellóleikari og Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari.

Vinirnir Sigurgeir og Ari Þór hafa unnið náið saman undanfarin ár en þeir léku einnig þríkonsert Beethovens með hljómsveitinni ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur árið 2013. Hlusta hér.

Meðal vinsælustu tónleika ársins voru Star Wars-bíótónleikar hljómsveitarinnar í apríl en tæplega 4.000 manns mættu í Eldborg til að sjá þessa sígildu kvikmynd með lifandi leik Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Star Wars var mögnuð á bíótónleikum Sinfóníunnar,“ sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins meðal annars um bíótónleikana.

Hljómsveitin frumflutti fjölda íslenskra hljómsveitarverka á árinu. Tvær íslenskar sinfóníur eftir þá Þorstein Hauksson og  voru frumfluttar í mars undir stjórn Önnu-Maríu Helsing. Einnig frumflutti hljómsveitin glæsilegan flautukonsert Jóns Ásgeirssonar með einleikaranum Emilíu Rós Sigfúsdóttur í janúar. „Magnaður flautukonsert Jóns Ásgeirssonar á skilið að heyrast sem oftast,“ sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins sem gaf tónleikunum fjórar og hálfa störnu.

Sinfo-4000

Tónleikagestir risu úr sætum og fögnuðu Jóni Ásgeirssyni að loknum frumflutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á flautukonserti hans með hljómsveitarstjóranum Ligiu Amadio og einleikaranum Emilíu Rós Sigfúsdóttur.

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti einnig fjölda íslenska hljómsveitarverka á Myrkum músíkdögum í janúar 2019. Þar hljómuðu í fyrsta sinn verkin Crevace eftir Pál Ragnar Pálsson, samið fyrir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara og Martin Kuuskmann fagottleikara, verkið Lendh eftir Veronique Vöku og Oceans eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur. Þá frumflutti hljómsveitin á Íslandi verkið Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskáld hljómsveitarinnar en verkið sem samið var og frumflutt af New York Philharmonic hefur fengið lofsama gagnrýni. 

Á liðnu ári gaf Sinfóníuhljómsveit Íslands út diskinn Concurrence í samstarfi við bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus. Diskurinn hefur hlotið frábæra dóma gagnrýnenda og var nýlega valin ein af 25 bestu útgáfum ársins af The New York Times. Á disknum má finna upptökur af verkunum Oceans eftir Maríu Huld, Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur, píanókonsert nr. 2 eftir Hauk Tómasson með einleikaranum Víkingi Heiðari Ólafssyni og Quake eftir Pál Ragnar Pálsson með sellóleikaranum Sæunni Þorsteinsdóttur.

Árið 2019 var stórt útgáfuár hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands en auk Concurrence gaf hljómsveitin út þrjá diska sem endurspegla vel fjölbreytt efnisstök hljómsveitarinnar. Í byrjun árs kom út hjá Chandos diskur með sinfóníum nr. 1 og 2 eftir Gounod undir stjórn Yan Pascal Tortelier. Smekkleysa gaf síðan út safndisk með einleikskonsertum í flutningi Rutar Ingólfsdóttur og Sinfóníuhljómsveitar Íslands en upptökurnar voru gerðar á árunum 1971-86. Að lokum skal nefna útgáfu BIS á Eddu II eftir Jón Leifs en Sinfónfóníuhljómsveit Íslands frumflutti þetta stórvirki íslenskrar tónlistarsögu og tók upp í Eldborg árið 2018 ásamt Hönnu Dóru Sturludóttur, Elmari Gilbertssyni, Kristni Sigmundssyni og Schola Cantorum undir stjórn Hermanns Bäumer.

Á Spotify-rás Sinfóníuhljómsveitar Íslands má finna allar útgáfur hljómsveitarinnar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt uppi öflugu fræðslustarfi á árinu. Hljómsveitin bauð upp á 18 skólatónleika og heimsótti 15 stofnanir og dvalarheimili. Samtals heimsóttu ríflega 18.000 nemendur hljómsveitina í Hörpu en hún bauð upp á fjölbreytt úrval af leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólatónleikum. Streymi frá skólatónleikum Sinfónuhljómsveitar Íslands hefur mælst einstaklega vel fyrir og horfðu ríflega 2.000 nemendur frá 27 bæjarfélögum um allt land á beint streymi frá skólatónleikum hljómsveitarinnar á árinu.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands fagnaði 10 ára afmæli sínu með hátíðartónleikum í Eldborg þar sem hún flutti Níundu sinfóníu Beethovens ásamt úrvalsliði ungra einsöngvara og æskukóra. Í tilefni af afmælinu tók Eliza Reid forsetafrú að sér hlutverk verndara Ungsveitarinnar.

300 ungmenni tóku þátt í flutningnum á Níundu sinfóníu Beethovens á tíu ára afmælistónleikum Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands tekur fagnandi á móti árinu 2020 sem er jafnframt 70. starfsár hljómsveitarinnar. Afmælinu verður fagnað á fjölda tónleika á árinu og hefst með fyrrnefndum afmælistónleikum 5. mars 2020 og í tilefni af stórafmælum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar (40 ára) og Listahátíðar í Reykjavík (50 ára) efna þessar menningarstofnanir til sameiginlegrar stórafmælisveislu og flytja Valkyrju Wagners á tvennum tónleikum í maí 2020. Af hápunktum næsta árs má einnig nefna flutning á sviðslistaverkinu AIŌN eftir þær Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur í apríl 2020. Verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar sem frumflutti það við frábærar viðtökur í maí 2019.

Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar tónleikagestum í Eldborg, í Reykjanesbæ, á Ísafirði, í Þýskalandi og Austurríki, gestum á Barnastundum og skólatónleikum hljómsveitarinnar, öllum þeim sem horfðu á beint streymi og hlustendum Rásar 1 kærlega fyrir samfylgdina á árinu.